HS Orka bakhjarl Kvenna í orkumálum
HS Orka verður bakhjarl samtakanna Konur í orkumálum, en skrifað var undir samninginn á dögunum. Samningurinn er til tveggja ára. Tilgangur félagsins er að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra sín á milli, svo og að stuðla að menntun og fræðslu kvenna er varðar orkumál. Félagsskapurinn var formlega stofnaður 15. janúar í fyrra og fagnar því eins árs afmæli sínu um þessar mundir.
„Það er nauðsynlegt fyrir okkur að auka hlut kvenna í orkugeiranum og við hjá HS Orku erum stolt af því að vera bakhjarl þessa mikilvæga félags. Mér finnst það mjög jákvætt að þessi samtök voru stofnuð og er bjartsýnn á að fleiri konur munu sækja í orkuiðnaðinn á komandi árum“ segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku
„Það er sérstaklega gaman að finna stuðninginn við félagið á þessum tímamótum en það er einmitt ár frá því að við héldum okkar fyrsta fund. Styrkurinn er vissulega til þess fallinn að færa okkur nær markmiðum okkar og erum við mjög þakklátar fyrir“ segir Harpa Pétursdóttir formaður Kvenna í orkumálum.
HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og það eina sem er í einkaeigu. Fyrirtækið framleiðir og selur rafmagn um allt land. Fullnýting og umhyggja fyrir umhverfinu hefur ætíð verið rauði þráðurinn í starfseminni og hefur meðal annars leitt af sér stofnun Auðlindagarðs á Reykjanesi, þar sem fyrirtæki hafa sprottið upp og nýtt hina ýmsu auðlindastrauma sem verða til við framleiðslu á rafmagni og heitu vatni.
Myndin er frá undirritun samnings sem fram fór í Eldvörpum:
Frá vinstri Marín Hafnadóttir umhverfis- og öryggisstjóri, Kristín Vala Mattíasdóttir framkvæmdastjóri Auðlindagarðsins, Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku, Harpa Pétursdóttir lögfræðingur hjá BBA og formaður Kvenna í orkumálum, Auður Nanna Baldvinsdóttir sérfræðingur hjá Landsvirkjun og meðstjórnandi, Ásdís Gíslason kynningarstjóri HS Orku.