HS og Herinn við það að semja
Varaformaður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja segir að það styttist í að samningar náist við Bandaríkjaher um kaup á heitu vatni eftir að herstöðinni var lokað. Fréttastofa RUV greinir frá þessu og samkvæmt heimildum hennar hljóðar eingreiðslan upp á 10 til 20 milljónir Bandaríkjadala sem er mun lægri upphæð en lagt var upp með í fyrstu.
Í samningnum um heitavatnskaupin var ákvæði um að varnarliðið afhenti eingreiðslu til Hitaveitunnar ef herstöðinni yrði lokað og að semja skildi um þá upphæð sérstaklega. Það var aldrei gert, og hafa nú staðið yfir samningarviðræður milli Hitaveitunnar og bandarískra hermálayfirvalda um málalok og hefur hitaveitan krafist 50 milljóna dala í eingreiðslu, eða 3,4 miljarða króna. Málaferli ytra hafa komið til greina en Gunnar Svavarsson, varaformaður Hitaveitu Suðurnesja, telur líklegast að málinu ljúki með eingreiðslu. Samkvæmt heimildum fréttastofu RUV hleypur sú upphæð á 10 til 20 miljónum Bandaríkjadala sem þýðir að greiðslan verður a.m.k. 680 miljónir króna og í mesta lagi tæplega 1,4 miljarðar.