Hrósa forstöðumönnum frístundaheimilanna
Á frístundaheimilum Reykjanesbæjar eru nú skráðir 609 nemendur. Fjöldi nemenda sem nýtir frístundaakstur er misjafn eftir dögum og eru flestir skráðir á mánudögum, 217 nemendur, en fæstir á miðvikudögum, 162 nemendur.
Haraldur Axel Haraldsson grunnskólafulltrúi fór yfir fjölda nemenda á frístundaheimilum Reykjanesbæjar og nýtingu frístundaaksturs í upphafi skólaárs 2024-2025 á fundi menntaráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku.
Töluverð vinna leggst á forstöðumenn frístundaheimilanna við skipulagningu og framkvæmd á frístundaakstrinum. Því fylgir óneitanlega aukið álag á starfsemina. Menntaráð hrósar forstöðumönnum frístundaheimilanna í fundargerð fyrir hversu vel þeir standa að þessari framkvæmd.