Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 6. september 2001 kl. 15:08

Hrörleg útihús metin á 20 milljónir

- gamalt mjólkurhús hækkaði á þriðju milljón í matinu

Karl Júlíusson, ellilífeyrisþegi í Grindavík, trúði ekki sínum eigin augum þegar hann fékk yfirlit yfir endurskoðað fasteignamat og brunabótamat á húseignum sínum frá Fasteignamati ríkisins. Brunabótamat á gömlu útihúsi sem hann á, hafði hækkað úr rúmum 7,6 milljónum í ríflega 20,3 milljónir. visir.is greindi frá.

Gömul geymsla við útihúsin, sem upphaflega var mjólkurhús hækkaði úr 2,2 milljónum króna í 4,8 milljónir í mati. Fasteignamat útihúsanna hækkaði einnig, en þó ekki nærri eins mikið og brunabótamatið. Útihúsin voru upphaflega fjós og hlaða. Síðar var rekin þar saltfiskverkun og rækjuverksmiðja. Húsin hafa staðið ónotuð síðan 1987. Karl hefur hýst þar nokkrar rollur og geymt hey, auk þess sem hann hefur skotið þaki yfir fáeina tjaldvagna. Byggingin er skráð sem iðnaðarhúsnæði hjá Fasteignamatinu. Heildarbrunabótamat á eignum Karls hefur nú hækkað um 17 milljónir og fasteignamatið um nær 10 milljónir króna við endurmat FR. "Ég var nýbúinn að láta lækka fasteignamatið á eignunum, þegar endurmatið kom til sögunnar," sagði Karl." Þá rauk það upp aftur og er nú hærra en nokkru sinni fyrr. Ég er alveg rasandi á þessum vinnubrögðum, en hef engar skýringar fengið.

Ástandið á útibyggingunni er afar bágborið. Timbrið í þakinu er svo fúið, að það heldur engum nöglum. Mér hefur þó tekist að skipta um hluta af járninu á því. Hluti af þakinu fauk fyrir nokkrum árum. Þá kom maður frá Fasteignamatinu. Hann sagði að húsið væri ónýtt og það myndi ekki borga sig að meta það. En það er ekki að sjá að það sé ónýtt í dag, með rúmar 20 milljónir í brunabótamat og rúmar 8 milljónir í fasteignamat." Karl greiddi innan við 25 þúsund í brunabótagjöld, en samkvæmt nýja matinu þarf hann að borga um 63 þúsund. Fasteignagjöldin eru á 3. hundrað þúsund, en voru um 200 þúsund fyrir endurmatið. "Ég ætla að brjóta niður mjólkurhúsið og útihúsin gömlu og láta fjarlægja þau," sagði Karl. "Það er ekki um neitt annað að gera. En ég skil ekki hvernig Fasteignamatið hefur fengið út að þessar byggingar væru allt í einu orðnar svona verðmætar, því þaðan hefur enginn maður komið til þess að meta þær. Það er eitthvað loðið við þetta allt saman." Karl hefur auglýst húseignir sínar til sölu en ekkert tilboð fengið. Þau hjónin hafa 150 þúsund krónur í mánaðartekjur, en þurfa að greiða rúm 90 þúsund á mánuði í afborganir af lánum af byggingunum. Vegna þessa háa fasteignamats fá þau engar vaxtabætur. "Þessar rollur og kartöflur í garði á haustin bjarga okkur" sagði Karl. "Ella væri lítið til að lifa af."
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024