Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hrina umferðaróhappa um helgina
Mánudagur 24. nóvember 2003 kl. 15:03

Hrina umferðaróhappa um helgina

Hrina umferðaróhappa gekk yfir Suðurnesin um helgina eins og sjá má þegar gluggað er í dagbók lögreglunnar í Keflavík.
Á laugardag kl. 19:38 var tilkynnt um umferðaróhapp á Grindavíkurvegi skammt sunnan við Bláalónsveginn. Þar hafði ökumaður fólksbifreiðar misst stjórn á bifreiðinni í hálku. Bifreiðin skemmdist nokkuð og var flutt af staðnum með dráttarbifreið. Ökumaðurinn sem var einn á ferð sakaði ekki.
Kl. 19:42 var tilkynnt um umferðaróhapp á Hringbraut í Keflavík rétt sunnan við Mánatorg. Þar hafði ökumaður, sem var einn á ferð, misst stjórn á bifreiðinni í mikilli hálku þannig að bifreiðin hafnaði á ljósastaur og síðan utanvegar. Töluverðar skemmdir urðu á bifreiðinni. Ökumann sakaði ekki.
Kl. 21:24 var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut á Miðnesheiðarvegi ( þ.e. á Sandgerðisvegi ) en þar hafði ökumaður jeppabifreiðar misst stjórn á bifreiðinni í mikilli hálku þannig að hún fór út fyrir veg og valt. Ökumaður og farþegi voru fluttir eitthvað slasaðir með sjúkrabifreið til læknisaðhlynningar. Bifreiðin var mikið skemmd og var flutt af staðnum með dráttarbifreið.

Á sunnudagsmorgun kl. 06:37 var tilkynnt um harðan árekstur tveggja fólksbifreiða á Reykjanesbraut. Lögregla, sjúkrabifreiðar og tækjabifreiðar voru sendar á staðinn. Á Strandarheiði höfðu tvær fólksbifreiðar skollið saman. Þrír varnaliðsmenn voru í bifreiðinni sem var á suðurleið en Íslendingur á sjötugsaldri var í bifreiðinni sem ekið var til Reykjavíkur. Beita þurfti klippum til að ná ökumanni annarar bifreiðarinnar úr flaki hennar og var hann fluttur til sjúkrahúss í Reykjavík mikið slasaður. Varnarliðsmennirnir hlutu mismikil meiðsl en tveir þeirra voru útskrifaðir af sjúkrahúsi fljótlega þennan sama dag. Mjög vont veður var þegar óhappið varð. Mikill hliðarvindur og rigning.
Kl. 14:15 varð árekstur milli bifreiða á gatnamótum Njarðarbrautar og Grænásvegar í Njarðvík. Annar ökumaðurinn notaði ekki bílbelti og var með áverka á andliti og kenndi eymsla í fæti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024