Hrina nauðungaruppboða framundan
Lokasölur á tæplega 100 fasteignum eru framundan hjá embætti Sýslumannsins í Keflavík í næstu viku. Það er svipaður fjöldi fasteigna og seldur var nauðungarsölu allt síðasta ár.
Uppboð á hvern íbúa á Suðurnesjum eru margfalt fleiri en hjá umdæmi sýslumannsins í Reykjavík.
Í byrjun september höfðu alls um 220 fasteignir á Suðurnesjum verið seldar á nauðungaruppboði frá síðustu áramótum. Aukningin er gríðarleg frá árinu 2007 þegar 28 eignir voru seldar á nauðungaruppboði. Hún er einnig mikil á milli ára því allt árið í fyrra voru 94 eignir á Suðurnesjum seldar nauðungarsölu samkvæmt upplýsingum frá embætti Sýslumannsins í Keflavík. Fyrir árið 2008 voru árlega seldar um 10 - 50 eignir á uppboði hér á Suðurnesjum.