Hrikalegar aðstæður og mikil hætta á hruni úr Valahnúki
Mikil hætta er á hruni úr bergi Valahnúks á Reykjanesi. Frá því í desember 2016 hefur verið lokað fyrir uppgöngu á Valahnúk á Reykjanesi. Ákvörðun um lokun var var m.a. tekin í samráði við Almannavarnanefnd Suðurnesja vegna hættu á hruni úr brún hnúksins.
Frá þessu er greint á vef VisitReykjanes.is. Á meðfylgjandi myndum og myndbandi sem teknar voru 15. desember sl. og birtar á vefnum má sjá að enn er mikil hætta á hruni úr Valahnúk og varhugavert að vera á ferli nálægt brún hnúksins þegar hrynur úr henni.
Fyrir ári síðan var lokað fyrir uppgöngu á Valahnúk með kaðli við göngustíg sem liggur meðfram ströndinni. Auk þess voru settar upp öryggismerkingar. Stuttu síðar var öðrum kaðli bætt við ofar í hnúknum og nær brúninni. Í haust voru tröppur sem lágu neðarlega í hnúknum fjarlægðar m.a. með það að markmiði að fólk gengi síður á hnúkinn.
Reykjanes Geopark mun kanna á næstunni til hvaða aðgerða hægt verður að grípa til þess að koma upplýsingunum um hvaða hættur beri að varast við útivist við Valahnúk betur á framfæri við ferðamenn og aðra gesti á svæðinu.
Valahnúkur 15.12.2017 from Visit Reykjanes on Vimeo.