Hrikaleg umgengni við sjávarsíðuna í Sandgerði
-Stefnt að úrbótum segir bæjarstjóri-
Eftir að umferð var hleypt á nýja götu sem liggur í suðurátt meðfram hafnarbakkanum í Sandgerði kom í ljós gríðarlega slæm umgengni margra fyrirtækja sem eiga húnæði sem veit niður að sjó.
Allskonar rusl af öllum stærðum og gerðum hefur víða safnast upp í bakportum og er engum til ánægju né yndisauka svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðis, sagði í samtali við Víkurfréttir að vissulega væri lítil sómi í þessari umgengni, en engu að síður sé þegar búið að ráðst í átak í tvígang þar sem um helmingur af draslinu hafi verið fjarlægt.
„En betur má ef duga skal og er ætlunin að ljúka hreinsun fyrir vorið. Bæjarfélagið er búið að kynna á skipulagsþingi áætlun um fegrun svæðisins og er ætlunin að hefja átak í að breyta fjörunni og hafnarsvæðinu í úttivistarsvæði með bláfánann við hún.”
Meðfylgjandi mynd sýnir rusl við sjávarsíðuna.
Hér má sjá áætlanir um nýtt skipulag við sjávarsíðuna