HRIKALEG EYÐSLA UMFRAM TEKJUR
- segir minnihlutinn sem sat hjá. Fjárhagsáætlunin samþykkt.Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2000 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í fyrradag. Eins og undanfarin ár taka skólamál, félagsþjónusta og íþrótta- og tómstundamál 70% af rekstrarfé bæjarsjóðs eða um kr. 945.000.000. Stærsti einstaki útgjaldaliður er laun og launatengd gjöld, eða um 1.163.622 kr. Þá eru ekki meðtalin laun hjá sameiginlega reknum stofnunum sveitarfélaga á Suðurnesjum. Álagningarprósenta útsvars hækkar úr 11,79% í 12,04%, eða um 0.25 prósentustig. Sorphirðugjald hækkar um 200 kr. á ári, fer úr 3500 kr. í 3700 kr. Skatttekjur eru áætlaðar um kr. 1.909 millj. kr. en nettó rekstrargjöld málaflokka eru kr. 1.514 mkr. sem svarar 79,28%. Til fjárfestinga á að verja 904 mkr. Afborganir langtímalána eru áætlaðar kr. 285 mkr. sem verða fjármagnaðar með skuldbreytingarlánum. Skuldaaukning bæjarsjóðs er áætluð kr. 670 millj.Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir ýmsum breytingum og nýjungum hvað varðar rekstur og skipulag bæjarins. T.a.m. opnar sérdeild fyrir börn á grunnskólaaldri með atferlistruflanir við Suðurgötu 4 fljótlega á þessu ári. Meirihlutinn lagði einnig til að ráðinn yrði menningarfulltrúi. Kristmundur Ásmundsson (J) lagði til að ráðningu menningarfulltrúa yrði frestað og í staðinn yrði ráðinn forvarnafulltrúi. Tillaga Kristmundar var felld af meirihlutanum.Heildarfjárfestingar á árinu eru áætlaðar 904 millj. kr.. Langstærsti hlutinn, 446 millj. kr., rennur til einsetningar grunnskólanna. Nýr leikskóli verður byggður við Krossmóa-Vallarbraut og lokið við viðbyggingu Tjarnarsels og áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir er um 120 millj. Til framkvæmda við fráveitumál verður varið 200 mkr. þ.e. áframhaldandi vinna á Fitjum og framkvæmdir við útrásir og dælustöð.Jóhann Geirdal (J) tók til máls eftir að tillaga að fjárhagsáætlun hafði verið lögð fram af meirihlutanum. Hann gagnrýndi vinnubrögð meirihlutans þar sem minnihlutinn kom hvergi nærri við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar og lýsti því yfir að fjárhagsáætlunin væri því algerlega á ábyrgð meirihlutans. „Að fenginni reynslu sjáum við ekki ástæðu til að leggja fram aðra fjárhagsáætlun því samkvæmt hefðinni er áætlun meirihlutans samþykkt með sjö atkvæðum hans, engu má breyta. Afleiðingin er hrikaleg eyðsla umfram tekjur, nú þegar tekjur bæjarins eru þó að stóraukast og eðlilegra væri að nota þær til að greiða niður skuldir í stað þess að stórauka þær. Heildartekjur bæjarsjóðs eru 1909 milljónir en útgjöld sem stofnað er til um 3809 milljónum. Það lætur því nærri að útgjöldin nemi tvöföldum tekjum“, sagði Jóhann. Fjárhagsáætlunin var samþykkt með sjö atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá í atkvæðagreiðslunni.