Hreinsunarátak hefst á morgun
— Strandhreinsun á Suðurnesjum
Umfangsmiklu strandhreinsunarátaki Nettó, Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og Bláa hersins verður ýtt úr vör á morgun, laugardaginn 27. maí. Um fimm fasa hreinsunarátak er að ræða sem hefst í Grindavík og verður svo haldið áfram um strandir Suðurnesjanna næstu helgar í sumar.
Sjálfboðaliðar á aldrinum fjórtán til sextán ára úr sund-og knattspyrnudeild UMFG verða í fararbroddi hreinsunarátaksins næstu helgi en allir eru hvattir til að taka til hendinni. Strandhreinsunin markar upphaf umhverfisdaga í Grindavík. Siggeir F. Ævarsson, upplýsingafulltrúi Grindavíkur, segir tilvalið að byrja á þessu svæði en nýr útsýnispallur við Brimketil verður vígður föstudaginn eftir viku.
Eins og áður segir mun Blái herinn verða atkvæðamikill í hreinsuninni og mun Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, leiða hópinn. Hann hefur marga fjöruna sopið ef svo má að orði komast og ekki óvanur strandhreinsunum sem þessum. Hinsvegar eru níu ár síðan hann lét síðast til sín taka með svipuðum hætti á þessum slóðum og söfnuðust þá 8.8 tonn af rusli. Hann segist ekki eiga von á að talan verði lægri í þetta skiptið, þegar allt verður tekið saman.
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa sem reka Nettó segir markmið strandhreinsunarinnar sannarlega að safna saman rusli og færa það til endurvinnslu, en það sé ekki síður til þess fallið að vekja athygli á mikilvægi umhverfismála á Íslandi. Verslanir Nettó hafi verið öflugar í að beina sjónum sínum að því sem betur megi fara undir formerkjum átaka á borð við Minni sóun og Allt-nýtt. „Við höfum dregið gríðarlega úr sorpmagni frá verslunum okkar undanfarin ár og stefnum á að draga úr því um 100 tonn í ár. Við stefnum á að halda þessu áfram og viljum endilega hvetja fleiri fyrirtæki til að leggja sitt á vogarskálarnar líka. “
Strandhreinsunin í Grindavík hefst kl. 10 við Brimketil sem staðsettur er um tíu kílómetrum vestan við Grindavík við Staðarberg. Verður þátttakendum boðið uppá hressingu í boði Nettó í Grindavík að verki loknu.