Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hreinsunarátak á rafgeymum
Þriðjudagur 18. apríl 2006 kl. 14:56

Hreinsunarátak á rafgeymum

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, Blái herinn og sveitarfélögin ætla að efna til hreinsunarátaks á rafgeymum í næstu viku í tilefni þess að dagur umhverfisins er þann 25. apríl. Að sögn Arons Jóhansssonar, umhverfisfullrúa, er vitað að mikið af gömlum og hættulegum rafgeymum er í umferð en sýran sem þeir hafa að geyma er hættuleg umhverfinu.

Aron segir að íbúar og fyrirtækiseigendur séu sérstaklega hvattir til losa sig við gamla og hættulega geyma sem hætt er að nota. Hægt verði að hringja í 421 8010 milli klukkan 8-17 dagana 24. -28. apríl og biðja um að rafgeymar verði sóttir af liðsmönnum Bláa hersins sem komi þeim til Kölku.

„Vitað er að mikið af gömlum og hættulegum rafgeymum er í umferð en sýran sem er á þeim er hættuleg umhverfinu, dýrum og mönnum. Þeir ættu því ekki að liggja á glámbekk, sérstaklega þar sem börn eru að leik því rafgeymasýran er stórhættuleg og ætandi“, segir Aron.

Kalka hvetur einnig almenning til að skila af sér öðrum spilliefnum, sem til falla á heimilum til gámastöðvanna eða móttökustöðvarinnar í Helguvík. Í mörgum tilfellum gerir fólk sér ekki grein fyrir hvað það er með í höndunum, segir Aron, en spillefni má ekki setja í ruslapokann, hella í vaskinn, salernið eða niðurfallið því slík efni eru mjög mengandi og ber að skila inn til eyðingar samkvæmt lögum.

„Það er rétt að taka skýrt fram að almenningur getur alltaf skilað af sér spilliefnum endurgjaldslaust til Kölku. Velflest spilliefn bera svokallað úrvinnslusjóðsgjald sem stendur straum af söfnun, flutningi og förgun þeirra. Það er lagt á spilliefni þegar það er keypt af neytanda. Það er því búið að borga förgunina á spilliefnunum við kaup vöru“, sagði Aron í samtali við VF.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024