Hreinsun Nikkelsvæðis að hefjast
Íslenskir aðalverktakar eru að hefja hreinsun á Nikkel-svæðinu í Reykjanesbæ, bæði ofanjarðar og neðanjarðar. Skil á svæðinu hafa þó ekki verið ákveðin.Utanríkisráðuneytið annars vegar og Varnarliðið hins vegar hafa samið við Íslenska aðalverktaka um hreinsunina. Hreinsun á mannvirkjum ofanjarðar á svæðinu er gerð fyrir utanríkisráðuneytið sem er með það mál á sinni könnu eftir samning við Varnarliðið um það fyrir nokkru síðan. Hreinsun á öllum neðanjarðarlögnum er á kostnað Varnarliðsins og hefur David Artzichel, aðmíráll á Keflavíkurflugvelli unnið í því máli og fengið fjármagn frá bandarískum yfirvöldum til þess. „Þetta er áfangi sem lengi hefur verið beðið eftir. Næsta verkefni, fullnaðarhreinsun á öllum menguðum jarðvegi svo og skil á svæðinu. Það verður líklega samningsatriði við nýjan aðmírál á Keflavíkurflugvelli sem tekur við í byrjun júlí“, sagði Ellert Eiríksson, bæjarstjóri í samtali við Víkurfréttir.