Hraunið hefur náð Grindavíkurvegi
HS Veitur fylgjast náið með þróun mála
Náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands staðfestir að hraun hefur nú náð Grindavíkurvegi rétt norðan við varnargarðinn. Búið er að loka skarðinu í varnargarðinum við Grindarvíkurveg.
Í svari við fyrirspurn Víkurfrétta segir forsvarsmaður HS Veitna að fylgst sé náið með þróun mála og verið sé að afla upplýsinga til að meta stöðuna betur. „Eins og staðan er núna erum við ekki komin í það viðbragð að innviðir okkar séu í hættu að fara undir hraunflæði og ekki talin ástæða fyrir íbúa að gera sérstakar ráðstafanir. Náttúran er vissulega óútreiknanleg svo það getur breyst og þá munum við upplýsa um það og gefa okkar viðskiptavinum upplýsingar um hvað þurfi að hafa í huga ef til þess kemur.“