Hraun runnið yfir sveitarfélagamörk Grindavíkur og Voga
Ekkert sem bendir til dramatískra breytinga á landsigi | Sennilegt að þetta verði keimlíkt og síðustu tvö gos
Hraun úr sjötta eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni hefur náð þeim áfanga að renna yfir sveitarfélagamörk Grindavíkurbæjar og Sveitarfélagsins Voga. Eldgosið, sem hófst fimmtudagskvöldið 22. ágúst kl. 21:26, er áberandi stærsta gosið til þessa af þeim eldgosum sem orðið hafa á Sundhnúkagígaröðinni fá 18. desember 2023.
„Þetta er áberandi stærsta gosið til þessa. Mælingar í dag [mánudag] benda til tæplega 50 milljón rúmmetra á fyrstu fjórum dögunum, fimmtudagskvöld til eftirmiðdags á mánudag. Þetta er heldur meira en kom upp í öllu síðasta gosi. Jafnframt er hraunið nú 12 km2, meðan að gosið í maí var u.þ.b. 8,5 km2,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir.
„Þetta er í takt við fyrri hegðun. Gosin fara stækkandi með tíma og hlutfallslega meira af kvikunni sem flæðir undan Svartsengi leitar upp til yfirborðs en var í fyrstu atburðunum frá nóvember til febrúar. Þetta er í sjálfu sér eðlileg þróun, þar sem gliðnun er nú tiltölulega lítil, minni gangar og stærri hraun,“ segir Magnús Tumi.
Magnús Tumi segir kvikuna vera að koma frá sama stað undan Svartsengi eins og hin gosin. Landsig sýni það mjög vel en land í Svartsengi hefur sigið um u.þ.b. 40 mm frá því eldgosið hófst.
Hvað er virknin í eldgosinu fram til þessa að sýna okkur?
„Í meginatriðum er þetta gos að hegða sér eins og mars- og maí- gosin. Mjög öflug fyrstu tímana og svo dregur hratt úr. Sennilega var hámarksflæði 1.500–2.000 m3/s í kannski fjóra til fimm tíma. Þessi öflugi byrjunarfasi var lengri en í síðasta gosi. Jafnframt var sprungan að lengjast í nokkra klukkutíma. Ekki gott að segja um þróunina, en sennilegt að þetta verði keimlíkt og síðustu tvö gos.“
Land er enn að síga yfir kvikuþrónni undir Svartsengi. Þá voru um 50 m3/s af kviku að koma upp úr gígunum á mánudag, sem er meira en í öðrum gosum á þriðja degi. Eins og áður þá dregur úr rennslinu með tíma.
„Landsigið er meira en síðast sem þýðir að útrennslið er í heildina töluvert meira en var í maí og miklu meira en í mars. Mest af landsiginu er komið fram og ekkert sem bendir til dramatískra breytinga á því ferli,“ segir Magnús Tumi.
Er þessi opnun svona langt til norðurs eitthvað að koma þér á óvart? Getur þetta þýtt að næstu gos séu að fjarlægjast Grindavík?
„Ég get ekki sagt að meiri opnun til norðurs hafi komið á óvart. Maður átti alveg eins von á að þetta myndi gerast. Það var búið að fara svo mikið til suðurs í hinum gosunum að sennilega er öll spenna þar útleyst, meðan að á norðurhlutanum var enn spenna eftir. Ef gosin verða fleiri, sem er ekkert ólíklegt ef þetta hegðar sér svipað og hin gosin, er erfitt að segja til um að þessi færsla sé komin til að vera. Við sjáum til.“
Kvikuframleiðni gossins virðist vera nokkuð jöfnGosið á norðurhluta Sundhnúkareinarinnar heldur áfram á þremur til fjórum gosopum og tilheyrandi hraunflæði. Kvikuframleiðni gossins virðist vera nokkuð jöfn, en þrátt fyrir það er talsverður breytileiki í formi og hæð kvikustrókanna. Þegar einn eflist þá virðist draga úr hinum. Þess vegna er líklegast að þessi hegðun komi til af því að stærð (flatarmál) gosopanna verður fyrir stöðugum breytingum. Eina stundina límist kvika á gosrásarveggina og þrengir gosopið, sem leiðir til hærri stróka. Annan tíma rífur kvikan hluta af gosopsveggjunum með sér og víkkar þá gosopið. Þá verða strókarnir lægri. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í pistli sem hann skrifar á síðu Rannsóknareiningar í eldfjallafræði og náttúruvá við HÍ. Þorvaldur segir að annað sem er athyglisvert við þetta sjötta gos á Sundhnúkareininni er hversu langt gossprungan hefur teygt sig til norðurs eftir Sundhnúkareininni. Gosið á reininni fyrir 2500 árum gerði slíkt hið sama og viðheldur virkninni á þeim hluta reinarinnar. Á sama tíma slökknaði á syðri hluta reinarinnar, þar sem meginþungi virkninnar hefur verið í fimm undanförnum gosum, þ.e. frá 18. desember 2023 til 22. júní 2024. Þorvaldur segir það vera hugsanlegt að þessi tilfærsla á virkninni stafi af breytingum á gosrásarkerfinu neðanjarðar og að stóri skjálftinn seint þann 22. ágúst 2024 (kl. 22:37:38; stærð 4.1) og þeir sem á eftir fylgdu séu tengdir hreyfingunum sem ollu þessum breytingum. |