Hraun getur náð Grindavíkurvegi fljótlega
Nokkuð þungur hraunstraumur er til suðurs frá gosstöðvunum. Hraunið er komið að varnargörðum austan Grindavíkur og rennur austan við garðana í átt til sjávar. Garðarnir eiga að halda hrauninu og beina því austur fyrir Þórkötlustaðarhverfið. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands rennur hraunið um einn kílómetra á klukkustund.
Þá er verið að loka varnargörðum við Grindavíkurveg þar sem hraun rann yfir veginn í eldgosinu 8. febrúar. Þegar þetta er skrifað er ekki langt í að hraun nái Grindavíkurvegi á sömu slóðum og síðast.