Hrannargata 6 hækki um tvær hæðir
Kiwi Stapinn ehf. hefur lagt fram erindi til byggingaryfirvalda í Reykjanesbæ ásamt uppdráttum AOK arkitekta um stækkun húsnæðis við Hrannargötu 6 í Keflavík. Fyrirhuguð breyting nær til lóðarinnar Hrannargötu 6 og næsta nágrennis hennar. Breytingin felur í sér að sá hluti hússins sem hýsir veisluþjónustu Soho hækkar um tvær hæðir.
Heildarstærð Hrannargötu 6 er í dag 1.807 m2 en verður eftir breytingu 2.550 m2. Lóðarstærð er 1.639 m2, nýtingarhlutfall er 1.1 en verður 1.55 eftir stækkun.
Gert er ráð fyrir að skipulagsreitur fyrir svæðið nái út fyrir vita (í austri) og út fyrir grjóthleðslu við strandstíg (í vestri) til að unnt sé að skipuleggja bílastæði sem hægt væri að samnýta með annarri starfsemi í húsinu og jafnvel með fyrirtækjum í nærliggjandi byggingum. Skipulagsmörk í norðri yrðu strandlínan, svæði sem yrði óbreytt og áfram skilgreint sem útivistarsvæði. Áætlað er að hægt sé að koma fyrir 70 bílastæðum auk sleppistæða fyrir rútur á þessum reit.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundinum að senda erindið í grenndarkynningu.