Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hrafnista taki við rekstri Hlévangs og Nesvalla
Miðvikudagur 31. júlí 2013 kl. 08:03

Hrafnista taki við rekstri Hlévangs og Nesvalla

Fundur var haldinn í stjórn Dvalarheimila aldraðra Suðurnesjum  mánudaginn 22. júlí sl. Þar voru rædd mál er varða ákvörðun um rekstraraðila hjúkrunarheimilisins Hlévangs. Böðvar Jónsson formaður rakti á fundinum fyrirliggjandi tilboð frá HSS og Hrafnistu í reksturinn. Ennfremur var minnt á að ákvörðun DS tengdist ákvörðun Reykjanesbæjar um rekstraraðila að nýju hjúkrunarheimili að Nesvöllum en aðalfundur DS taldi mikilvægt að sami rekstraraðili væri að báðum heimilum. Lagði Böðvar til að stjórn DS myndi mæla með að farið yrði í viðræður við Hrafnistu um rekstur hjúkrunarheimilisins Hlévangs og Nesvalla. Allmiklar umræður urðu um hugsanlega rekstraraðila og fyrirliggjandi tilboð. Kom m.a. fram að tilboð HSS í rekstur hjúkrunarrýma væri óaðgengilegt þar sem það væri háð skilyrðum sem stjórnarmenn DS gætu ekki fallist á, frá þessu er greint í fundargerð frá fundinum.

Einar Jón Pálsson, fulltrúi Sveitarfélagsins Garðs fór yfir umræður og bókun sem samþykkt var á aukabæjarstjórnarfundi Garðs þann 18.júlí s.l. Niðurstaða bæjarstjórnar Garðs er að rekstri á Garðvangi verði haldið áfram en Hlévangi lokað eins og til stóð. Þá sagði hann óásættanlegt að í samstarfi sveitarfélaganna geti tvö af fjórum sveitarfélögum ákveðið að loka einum af stærsta vinnustað í Garðinum.  Einar Jón lagði fram bókun þar sem segir að bæjarstjórn Garðs telji að ákvörðun um að semja við sérstakan rekstraraðila
sem annist rekstur hjúkrunarþjónustu við aldraða á starfssvæði DS sé ekki tímabær, þar sem ekki liggur fyrir hvernig og hvar hjúkrunarrými sem falla undir DS verða rekin.  Rétt sé að sú niðurstaða liggi fyrir áður en slíkar ákvarðanir verða teknar, segir í bókun Einars.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Böðvar Jónsson minnti á að stjórn DS hefði þegar ákveðið hvar hjúkrunarrými á vegum DS verði staðsett og taldi nauðsynlegt að taka afstöðu til rekstaraðila sem fyrst enda væri það bæði rekstrinum, íbúum, aðstandendum og starfsfólki fyrir bestu að fá skýra sýn á framtíð rekstursins sem fyrst.   Einar taldi ekki liggja ljóst fyrir hvar reksturinn yrði enda þyrfti ákvörðun ráðuneytis til að færa reksturinn af Garðvangi enda sé ekki samstaða um málið í stjórn DS. Ólafur Þór fulltrúi Sandgerðis tók undir þessa afstöðu Einars.

Að loknum umræðum var gengið til atkvæða.Tillaga Einars Jóns um frestun á ákvörðun um rekstrarform og rekstraraðila var borin upp og felld með 4 atkvæðum frá fulltrúum Reykjanesbæjar og Voga gegn tveimur atkvæðum frá fulltrúum Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs. 

Var þá borin upp tillaga formanns um að gengið yrði til viðræðna við Sjómannadagsráð/Hrafnistu um rekstur hjúkrunarheimilisins Hlévangs. Var tillagan samþykkt með 4 atkvæðum frá fulltrúum Reykjanesbæjar og Voga. Fulltrúar frá Sandgerði og Sveitarfélaginu Garði sátu hjá. Einar Jón Pálsson vísaði í bókun sína frá því fyrr á fundinum. 

Nánar er fjallað um málið í Víkurfréttum á morgun.