Hrafna-Flóki flytur frá Ásbrú í Víkingaheima
Hrafna-Flóki mun flytja í Víkingaheima á Fitjum á næstu dögum. Hrafna-Flóki hefur haldið til á stalli framan við gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sl. fimmtán ár en þann 11. júní 1994, í roki og rigningu, var skúlptúr með Hrafna-Flóka afhjúpaður af yfirmönnum Varnarliðsins, þeim Michael Haskins sem var aðmíráll og kapteininum, C.T. Butler.
Styttan af Hrafna-Flóka var minnismerki um samvinnu og gagnkvæma virðingu Íslendinga og Bandaríkjamanna sem störfuðu hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.
Skúlptúrinn eða styttan af Hrafna-Flóka er eina útilistaverkið á Ásbrú, eins og gamla herstöðin á Keflavíkurflugvelli heitir í dag. Styttan er í dag úr alfaraleið og mun njóta sín mun betur við Víkingaheima á Fitjum.
Að sögn Steinþórs Jónssonar hjá Víkingaheimum þá er það Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, sem færir Víkingaheimum styttuna til varðveislu.
Myndir: Hrafna-Flóki er í dag framan við gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Styttan verður flutt að Víkingaheimum á Fitjum. Hrafninn er með forláta hálsfesti eins og sjá má.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson