Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hrærður eftir einstakt björgunarafrek
Á myndinni má sjá Chris lengst til hægri, með björgunarsveitarmönnunum sem björguðu honum um síðustu helgi. VF-mynd/dagnyhulda
Þriðjudagur 5. júlí 2016 kl. 14:50

Hrærður eftir einstakt björgunarafrek

- Siglingakappi á árabát frá Grindavík til Grænlands

„Sæll Chris, við sjáum flugdrekann þinn. Þér verður bjargað. Við erum í 3,5 mílna fjarlægð en á leiðinni.“ Þessi orð úr talstöð björgunarbáts Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík glöddu siglingakappann Chris Duff frá Bandaríkjunum meir en orð fá lýst, að hans sögn. Chris er þekktur siglingakappi víða um heim og hefur gefið út tvær bækur um ferðir sínar. Hann var á leið frá Grindavík til Grænlands bát sínum, Northern Reach, sem er nokkurs konar árabátur með seglum, þegar mikið hvassviðri skall á. Chris var staddur tæpar 100 sjómílur suðvestur af Grindavík og hafði rekið suður á bóginn í þó nokkurn tíma þegar hann ákvað að kalla eftir hjálp björgunarsveitarinnar þar sem útlit var fyrir áframhaldandi rok og mikið hafði dregið af heilsu hans. Björgunarsveitarmönnum gekk illa að koma auga á hann en á bátnum var hann með flugdreka sem hann með naumindum gat sett upp svo til hans sæist.

Ferð Chris frá Grindavík hófst miðvikudaginn 29. júní síðastliðinn en neyðarkallið barst svo á laugardag, 2. júlí. Sigling Chris frá Grindavík til Grænlands sóttist vel framan af en síðan fór veðrið að versna. Fjórir björgunarsveitarmenn frá Þorbirni, þeir Guðjón Sigurðsson, Helgi Einarsson, Smári Þórólfsson og Gunnar Jóhannesson lögðu af stað á björgunarbátnum Oddi V. Gíslasyni á laugardag og tók björgunin um sólarhring. Ölduhæðin var um þrír til fjórir metrar. Chris dvelur nú í góðu yfirlæti hjá vinum sínum í Grindavík og er að ná sér eftir ófarirnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Blaðamaður Víkurfrétta ræddi við Chris fyrir ferðina örlagaríku í síðustu viku og svo aftur í gær og verður viðtalið birt í Víkurfréttum sem koma út á fimmtudag. Í gær var haldin athöfn í Grindavík þar sem Chris afhenti björgunarsveitarmönnunum fjórum ár úr bátnum en hún er það eina sem hann tók með sér til baka. Það var hjartnæm stund þegar Chris þakkaði þeim fyrir lífsbjörgina og átti hann varla til orð yfir þrautseigju og fagmennsku björgunarsveitarmannanna. Hann var með nagandi samviskubit að þurfa að kalla þá út og óttaðist um öryggi þeirra allan tímann. Chris hefur stundað siglingar bæði á kajak og árabát í um þrjá áratugi og siglt langar vegalengdir um heimsins höf. Hann ætlar að láta siglinguna áleiðis til Grænlands á dögunum vera sína síðustu.

Á árina hafði Chris skrifað hjartnæma kveðju til þeirra sem björguðu honum.

Northern Reach er ekki stór bátur. Í þessu rými dvaldi Chris meira og minna þann tíma sem versta óveðrið stóð yfir. Myndin var tekin rétt áður en hann lagði af stað frá Grindavík í síðustu viku.

Chris er smiður og bátinn smíðaði hann sjálfur. Hér er hann rétt áður en hann lagði í ferðina örlagaríku síðasta miðvikudag. Þá leit veðurspáin vel út en það átti eftir að breytast.