Hræddur um skemmdir á húsnæðinu vegna frostsins
„Ég skil ekki út af hverju ekki var hægt að hefjast handa strax á mánudeginum,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík, og vísar til verðmætabjörgunar í fyrirtækinu sem hafði bæði orðið heitavatns- og rafmagnslaust í kjölfar eldgossins á sunnudaginn. Þorbjörn var tilbúinn með sinn mannskap til að bjarga húsnæði fyrirtækisins og mannskapurinn hefði svo getað aðstoðað við að bjarga öðru húsnæði. Gunnar er samt sem áður bjartsýnn á framtíðina og sér fyrir sér að hægt verði að stunda fiskvinnslu áfram í Grindavík, þó svo að full búseta verði ekki leyfð.
Gunnar hefur mestar áhyggjur af vinnsluhúsnæðinu vegna frostsins sem nú er. „Mér líður pínulítið þannig að við séum komin í sama farið og eftir jarðhræringarnar 10. nóvember. Þá fórum við í verðmætabjörgun sem snerist um að ná afurðum út úr húsnæðinu og selja til kaupenda. Núna snýst verðmætabjörgunin um að bjarga húsnæðinu því það liggur undir skemmdum vegna frostsins sem nú herjar á okkur. Þetta vissum við strax á mánudagsmorgun. Veðurspáin sagði til um þetta. Ég skil ekki að út af hverju það var ekki hafist handa strax, hver mínúta skiptir sköpum þegar verið er að koma vatni út af lögnum svo ekki frostspringi. Við vorum tilbúnir með okkar mannskap til að bjarga okkar vinnsluhúsnæði, vorum í góðu sambandi við félag pípulagningameistara, höfum haft Þorstein Einarsson, hjá Lagnaþjónustu Þorsteins, okkur til aðstoðar og ég er sannfærður um að ef okkar mannskap hefði verið hleypt inn til að bjarga okkar húsnæði og þeir hefðu svo getað nýst áfram í að bjarga öðrum eignum fyrirtækja og einstaklinga, hefði okkar húsnæði bjargast og fjöldi annarra húseigna. Það er sorglegt að pípulagninarmenn hafi ekki komist inn í bæinn fyrr en á hádegi á þriðjudag.“
Uggur varðandi nánustu framtíð
Þorbjörn hóf vinnslu í húsnæði sínu í Grindavík í þriðju viku frá rýmingunni í nóvember og ágætis kraftur var kominn í vinnsluna. En það er uggur í Gunnari varðandi nánustu framtíð.
„Við vorum komnir á u.þ.b. 50-60% afköst og góð stemning á meðal starfsfólks. Við sáum fyrir okkur að afköstin væru bara að fara aukast og litum framtíðina björtum augum. Þessar sviptingar undanfarna daga settu okkur auðvitað nokkur skref afturábak en núna hef ég mestar áhyggjur af húsnæðinu, þó svo að okkur verði heimilað að hefja vinnslu aftur, er ég hræddur um skemmdir á húsnæðinu vegna frostsins. Nú er vertíðin á fullu og auðvitað er slæmt að geta ekki unnið fiskinn og komið afurðum til okkar viðskiptavina. Við eigum auðvitað okkar kvóta og getum veitt hann en við erum með vinnslu og viljum getað sinnt okkar viðskiptavinum. Þetta setur okkur í vandræði og við erum að skoða hvernig framhaldið verður,“ segir Gunnar.
Verðum að sjá hvernig næstu vikur og mánuðir þróast
Gunnar sér fyrir sér að hægt verði að stunda fiskvinnslu í Grindavík á næstunni, þó svo að útlit sé fyrir að ekki verði leyfð búseta.
„Meirihluti starfsfólks okkar eru útlendingar, þau voru flest mjög jákvæð að snúa aftur til vinnu en eftir eldgosið á sunnudaginn er ég smeykur um að þau séu ekki eins viljug og því sýni ég fullan skilning. Við verðum að sjá hvernig næstu vikur og mánuðir þróast en ég sé alveg fyrir mér að þó svo að full búseta verði ekki leyfð í Grindavík næstu árin, að við getum samt haldið úti starfsemi, þ.e.a.s. ef húsnæðið býður upp á það. Það er alveg hægt að keyra mannskapnum til og frá vinnu. Flestir gætu búið á verbúðum sem væru vel vaktaðar en það væri í raun öruggara fyrir starfsfólkið í stað þess að ferðast alla daga til og frá vinnu. Það má nefnilega ekki gleyma að það er líka hætta fólgin í því að keyra, eins og sorgleg dæmi undanfarið sýna okkur fram á. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður bara að koma í ljós en það er engan bilbug á okkur hjá Þorbirni að finna, við munum halda ótrauð áfram,“ sagði Gunnar að lokum.