Hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og BSÍ skilar 40 til 60 milljörðum
Undirbúningur framkvæmda gæti hafist árið 2015
Samfélagslegur ábati af hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkurer 40-60 ma.kr. en um er að ræða ábata notenda vegna skilvirkni lestarsamgangna og ábata samfélagsins vegna öryggis og umhverfisáhrifa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna kynningarfundar þar sem kynntar voru niðurstöður skýrslu um arðsemi hraðlestar. Bygging og rekstur hraðlestar er hagkvæm fjárfesting í einkaframkvæmd sem ekki kallar á bein opinber framlög segir í tilkynningu.
Auk reiknaðs samfélagslegs ábata skapar verkefnið möguleika á samnýtingu við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem gætu minnkað umferðarþunga og skapað enn frekari ábata í umferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins. Á Suðurnesjum er verkefnið líklegt til að hafa áhrif til hækkunar á fasteignaverði og launastigi ásamt því að auka nýfjárfestingar og vaxtarmöguleika fyrirtækja þar vegna stærri markaðar og skilvirkari samgangna. Líklegt er að Suðurnes verði fýsilegri kostur en áður fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að vali á höfuðstöðvum.
Lagt er til að aðilar verkefnisins stofni hlutafélag um framhald málsins. Í kjölfarið sjái félagið um undirbúning og framkvæmd verkefnisins. Undirbúningur framkvæmda gæti hafist árið 2015, framkvæmdir verið komnar á fullt árið 2018 og lestin hafið rekstur árið 2023 að því gefnu að fjármögnun undirbúningsfélags ljúki fyrir árslok.