Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hraðbankar innandyra betur varðir gegn glæpum
Föstudagur 8. september 2006 kl. 14:23

Hraðbankar innandyra betur varðir gegn glæpum

Erfitt er fyrir þjófa og aðra misyndismenn að koma fyrir búnaði sem stelur rafrænum upplýsingum af krítarkortum í hraðbönkum sem staðsettir eru innandyra. Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðsstjóri í Keflavík, segir umgjörð hraðbanka Sparisjóðsins í Keflavík vera þannig úr garði gerða að eftirlit með bönkunum sé mikið.

Mbl.is birti í morgun grein þess efnis að búnaður til þess að stela kortaupplýsingum hefði fundist á kortasjálfsala á bensínstöð í Reykjavík. Málið mun vera það fyrsta sinnar tegundar hérlendis að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík.

Geirmundur segir Sparisjóðinn í Keflavík strax hafa gert varúðarráðstafanir þegar fregnir víðs vegar að úr heiminum fóru að berast af þessu vandamáli. „Þetta eru ekki menn sem eru að útbúa eitthvað heima á eldhúsborði heldur færir tæknimenn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera,“ sagði Geirmundur um þá þjófa sem orðið hafa hvað færastir í þessum glæpum erlendis.

Hraðbankar Sparisjóðsins í Keflavík eru allir staðsettir innandyra þar sem öryggismyndavélar fylgjast með þeim. Af þeim sökum ætti það að vera erfitt fyrir þjófa að athafna sig með einhvern búnað við hraðbankana óséðir.

Hörður Jóhannesson sagði einnig við Mbl.is í morgun að málið í Reykjavík hefði uppgötvast strax og því talið að tjón hafi orðið mjög takmarkað, ef nokkurt.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024