Hótel Keflavík rýmt vegna elds
Hótel Keflavík við Vatnsnesveg í Keflavík var rýmt nú á tólfta tímanum vegna elds sem kom upp í þvottahúsi hótelsins. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja hefur slökkt eldinn.
Það var á tólfta tímanum í dag sem brunaviðvörunarkerfi hótelsins fór í gang en á sama tíma gaus upp mikill reykur á bæði veitingastað hótelsins og í afgreiðslu. Jón William Magnússon, eigandi hótelsins, sagði í samtali að eldurinn hafi komið upp í rafmagni í þvottahúsinu. Eldurinn hafi logað í fölsku lofti ofan við þvottavélar og hefur örugglega kraumað þar í nokkra stund áður en viðvörunarkerfi fór í gang.
Nokkur reykur var í afgreiðslu og á veitingastað hótelsins, sem stendur fyrir ofan þvottahúsið. Nú er búið að opna alla glugga og hurðir til að reykræsta hótelið en ekki er gert ráð fyrir að flytja þurfi gesti annað vegna brunans.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi nú á tólfta tímanum.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson