Hótel Keflavík óskar eftir lögbanni á nýtt nafn Flughótels
Hótel Keflavík lagði í morgun fram lögbannsbeiðni á nýtt nafn Flughótels sem eigendur Hótels Keflavíkur telja vera markaðsmisnotkun. Nýja nafnið er Icelandair Hotel Keflavík, eins og sjá má á skilti við inngang hótelsins. „Við sáum nýja nafnið á Flughóteli fyrst á tölvupósti um miðjan júlí í tengslum við hótelpöntun sem við gerðum hjá þeim en við höfum sent mjög mikið af hótelgestum yfir til þeirra síðustu ár og nær því daglega í sumar. Samskiptin hafa því verið mjög góð á milli hótelanna hingað til og varð maður því vægast sagt orðlaust að þau skildu gera okkur þennan óleik en Hótel Keflavík hefur verið okkar nafn nú í rúmlega 25 ár,“ sagði Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur.
„Það eru miklar tilfinningar sem tengjast nafni Hótel Keflavík hjá okkur fjölskyldunni og starfsfólki okkar auk þess að við teljum að hér sé um hreina og klára markaðsmisnotkun að ræða. Þá hafa komið upp dagleg vandamál og ruglingur síðustu vikur sem við getum stutt með gögnum. Að sjálfsögðu höfðum við strax samband við hótelstjóra Flughótels auk eiganda og framkvæmdarstjóra Icelandair og Icelandairhótela. Afsakanir þeirra um að Icelandair sé að breyta nöfnum allra hótela í sinni keðju í þessa veru er í besta falli hjákátleg og samningarfundir því engu skilað. Við áttum því engan annan kost í stöðunni en að fara fram á lögbann og málsókn í framhaldinu og var lögbannsbeiðnin tekin fyrir hjá sýslumanni í morgun. Í okkar huga liggur málið ljóst fyrir en fyrirtæki í sömu þjónustu geta einfaldlega ekki eignað sér nöfn samkeppnisaðila til eins að auka viðskipti á kostnað hins.”
Forráðamenn Icelandair hótelanna vildu ekki tjá sig um málið að svo stöddu.