Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hótanir um fleiri uppsagnir hjá Varnarliðinu
Fimmtudagur 30. október 2003 kl. 11:54

Hótanir um fleiri uppsagnir hjá Varnarliðinu

Hótanir um fleiri uppsagnir hjá Varnarliðinu komu fram á fundi trúnaðarmanna starfsmanna Varnarliðsins og starfsmannastjóra Varnarliðsins í húsakynnum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis sl. mánudag. Á fundinum lýstu forsvarsmenn VSFK fram efasemdum um að uppsagnirnar væru lögmætar og kom þá fram í máli fulltrúa starfsmannahalds Varnarliðsins að ef aðgerðum væri frestað yrði fleiri starfsmönnum sagt upp störfum. Kristján Gunnarsson formaður VSFK staðfesti í samtali við Víkurfréttir að þessi hótun hafi komið fram á fundinum. Ef af frestun uppsagna verður eins og nú er rætt um verður þeim 90 starfsmönnum sem sagt var upp störfum sl. þriðjudag greidd laun í einn mánuð til viðbótar.

Í fréttatilkynningu frá Varnarliðinu sem barst fjölmiðlum á þriðjudagskvöld er sérstaklega tekið fram að frestun á aðgerðum myndi hafa fleiri uppsagnir í för með sér. Þar segir orðrétt: „Frestun á umræddum aðgerðum hefði óhjákvæmilega haft fleiri uppsagnir í för með sér.“

„Ég get ekki setið undir því, að fái Varnarliðið ekki að brjóta lög verði stéttarfélög á Suðurnesjum gerð ábyrg fyrir uppsögnum fleiri starfsmanna á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir í morgun. Guðbrandur segir að það fólk sem nú sé að missa atvinnu sína eigi sinn lögverndaða rétt og að stéttarfélögum beri skylda til að sjá til þess að sá réttur sé virtur. „Varnarliðið verður að finna aðra sökudólga en stéttarfélögin í þessu máli. Svona hótun er mjög óviðeigandi og þeim til skammar. Við veitum ekki heimildir til lögbrota. Það verða aðrir að gera.“

Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins vildi ekki tjá sig um málið en vísaði til ummæla í fréttatilkynningu frá Varnarliðinu sem send var fjölmiðlum sl. þriðjudag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024