Hótaði að hætta styrkveitingum ef ekki fengist leyfi fyrir fiskþurrkun
Hitamál í Grindavík
-Einn stærsti styrktaraðili íþrótta í Grindavík hótaði að hætta stuðningi við íþróttastarf ef hann fengi ekki lengra starfsleyfi fyrir fiskþurrkunarfyrirtæki í hans eigu. „Þetta var bara hryðjuverk, það átti bara að ráðast á þetta fyrirtæki og loka því,“ segir Hermann Ólafsson, eigandi Stakkavíkur og Þurrkaðra fiskafurða. Titringur og ósamstaða var um málið í bæjarstjórn Grindavíkur. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja segir að fiskþurrkanir eigi ekki heima í þéttbýli og það hafi verið óábyrgt að veita leyfið.
„Ef ég er að styrkja íþróttalífið í Grindavík og bæjarapparatið ætlar að setja fyrir okkur fótinn, þá er ekki hægt að styrkja íþróttastarfið. Það er bara verið að benda á að ef fyrirtækið lokar þá getur það ekki styrkt íþróttastarfið,“ segir Hermann T. Ólafsson, eigandi Stakkavíkur, eins stærsta fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækis í Grindavík en hann sendi í vor hótun í tölvupósti til bæjarfulltrúa Grindavíkur og forráðamanna Ungmennafélags Grindavíkur þess efnis að fái hann ekki starfsleyfi til fjögurra ára fyrir fyrirtækið Þurrkaðar fiskafurðir, sem hann á helmingshlut í, þá myndi fyrirtæki hans (Stakkavík) hætta stuðningi við íþróttastarf í bæjarfélaginu. Hermann og fyrirtæki hans hafa verið einn stærsti stuðningsaðili íþrótta í Grindavík um árabil.
Þetta hitamál kom upp í aðdraganda kosninga í vor. Þurrkaðar fiskafurðir ehf. sóttust þá eftir starfsleyfi til fjögurra ára en áður hafði leyfi verið veitt til eins árs til reynslu. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafði veitt leyfið til þess að skoða mætti hvort sérstakur hreinsunarbúnaður virkaði sem skyldi.
Fulltrúar frá B- og S-lista í Grindavík vildu klára þennan umrædda árs-reynslutíma og lögðu til skömmu fyrir kosningar í vor, að málinu yrði frestað fram á haust. Fulltrúar G-lista voru því ekki sammála. Í bókun bæjarráðs þann 21. maí s.l. segir að það sé vilji fyrirtækisins að vera með sitt á hreinu enda hafi þeir fjárfest í dýrum búnaði til að koma í veg fyrir ólykt. Fulltrúar G-listans vildu veita þeim leyfið og eyða þeirri rekstraróvissu sem fyrirtækið hafi búið við og svo það gæti haldið áfram sinni uppbyggingu. Fulltrúi D-lista tók undir með fulltrúa G-lista. Leyfið var síðan samþykkt á fundi Heilbrigðisnefndar Suðurnesja en í henni sitja fulltrúar frá öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, þar af er einn frá Grindavík, sem sótti það stíft að fyrirtækið fengi leyfið til fjögurra ára.Lovísa H. Larsen frá G-lista var fulltrúi Grindavíkur í Heilbrigðisnefnd Suðurnesja á þessum tíma. „Það er heill flokkur sem tekur þessa ákvörðun. Eftir að hafa skoðað málin ítarlega þá vorum við þeirrar skoðunar að það væri hægt að halda lyktinni í algjöru lágmarki og það á iðnaðarsvæði. Með það í huga að þeir færðu sig út á Reykjanes í framtíðinni,“ segir Lovísa.
Hún segist hafa farið í umrætt fyrirtæki og skoðað aðstæður ásamt Jóni Guðmundi Ottóssyni frá Stakkavík og fleirum. Hún segir svo meirihlutanum í Grindavík að hún gæti ekki neitað þeim um leyfið af engum ástæðum. Þegar hún svo heldur á fund heilbrigðisnefndar þá hafi bæjarfulltrúar frá Grindavík haft samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Lovísa biður þá um að afgreiðslu málsins verði frestað. Hún segir að við það hafi margir aðilar orðið reiðir. Í þessu ferli öllu saman segist hún ekki hafa rætt neitt við Hermann Ólafsson hjá Stakkavík. „Eftir að málinu var frestað þá sendir hann einhvern tölvupóst. Ég fékk hann ekki en heyrði af honum frá mínum flokksfélögum.“
Hvernig varð ykkur um við innihald póstsins? „Mér líkar aldrei vel við hótanir, sama hver á í hlut. Ég tók þarna upplýsta ákvörðun áður en ég labba inn á þennan fund sem var svo frestað. Þessi póstur berst svo eftir það.“ Lovísa segir að eftir að Kristín kemur af bæjarráðsfundi með bókun frá Sjálfstæðisflokki þá hafi þessi ákvörðun verið tekin innan G-lista. „Við hefðum annars aldrei gert það ein,“ segir Lovísa.
Létu ekki undan þrýstingi frá Hermanni
Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar og fulltrúi G-lista, segir að ekki hafi verið samstaða um málið í bæjarstjórninni. „Við fórum hins vegar og kynntum okkur málið mjög vel áður en tekin var ákvörðun um þetta í heilbrigðisnefndinni. Við kynntum okkur hvernig búnaðurinn virkaði, heimsóttum fyrirtækið og ræddum við sérfræðinga hjá Matís. Við vissum líka að það að vera með ársleyfi setur fyrirtæki í erfiða stöðu þegar þau eru að fjárfesta og byggja upp.“
Kristín viðurkennir að hún kannist við það að Hermann í Stakkavík hafi látið í sér heyra og gert því skóna að hann hygðist hætta að styrkja íþróttastarf í bænum. „Það hafði alls ekki áhrif á okkar ákvarðanatöku. Ef mönnum sem eiga hagsmuna að gæta finnst að sér vegið, eins og honum fannst þarna, þá skil ég alveg þeirra sjónarmið. Við vorum hins vegar ekki að láta undan þrýstingi frá Hermanni í Stakkavík.“
Finnst þér eitthvað óeðlilegt við þessa yfirlýsingu hans?
„Ég ætla ekki að fara að meta hvað er eðlilegt og óeðlilegt í fari Hermanns í Stakkavík. Það verður hver og einn að fá að hafa það eins og hann vill, hvernig hann ætlar að verja sína hagsmuni. Þetta hafði ekki áhrif á okkar ákvörðun.“ Kristín segir að fyrirtækið hafi verið starfrækt í fleiri mánuði án þess að nokkur segði neitt. Það hafi ekki verið fyrr en fyrirtækið sóttist eftir leyfi að umræðan fór í gang. „Það virtist sem svo að þá hafi allir skyndilega byrjað að finna lykt. Kannski fór fólk að gefa því meiri gaum. Við fengum líka loforð um það að þessu yrði lokað ef það færi að finnast einhver fnykur um allan bæ.“
Úr tölvupósti Hermanns:
„Stundum gerast óvæntir hlutir, óvinaherinn kom óvænt baka til upp á eyjuna, fimm af fulltrúum Grindavíkur mótmæltu þessu. Þannig að ekkert varð úr. Þetta lítum við mjög alvarlegum augum og mjög mikla vanvirðingu við hið góða starf sem við í Stakkavík höfum unnið hér í bæ, að við héldum. Að fá svona afgreiðslu frá bæjarstjórn Grindavíkur virkar sem þungt högg í okkar andlit. Við héldum að við værum að dansa sama dans. Í ljósi þessa höfum við í Stakkavík ákveðið að loka fyrir alla styrki til þeirra til íþrótta hér í bær, sem við höfum verið að styrkja. Þetta er okkur ekki ljúft en ég er búin að hugsa þetta í þaula, og þetta er niðurstaðan. Mér finnst alveg furðulegt að þessir bæjarfulltrúar skyldu aldrei hafa manndóm í sér og koma hingað og ræða við okkur og láta okkur vita ef eitthvað væri að. En samt held ég að þessir 5 bæjarfulltrúar sem kosnir hafa verið af fólkinu hljóta að vera þeir bestu sem völ var á þannig að þeir eru með plan B. Sem sagt ekki er hægt að svelta íþróttirnar og bærinn hlýtur að taka við kyndlinum af Stakkavík, það er allavega von okkar.
Hermann segist í samtali við Víkurfréttir ekki vera að hóta einu eða neinu í tölvupóstinum. „Ef ég er að styrkja íþróttalífið í Grindavík og bæjarapparatið ætlar að setja fyrir okkur fótinn, þá er ekki hægt að styrkja íþróttastarfið. Það er bara verið að benda á að ef fyrirtækið lokar þá getur það ekki styrkt íþróttastarfið, forsendan væri brostin. Þá sagði ég bara, þá takið þið bara við. Bærinn hefur hagsmuni af því að fyrirtæki styðji við íþróttastarf í bænum, þá á bærinn að styðja vel við bakið á okkur líka, en ekki brjóta okkur niður.“
Eftir að þú sendir póstinn frá þér, hafði þá einhver fulltrúi frá bænum eða UMFG samband við þig?
„Nei, það held ég ekki, ég man ekki til þess sérstaklega. Ég held að enginn hafi tekið mark á þessu. Ég held að það hafi allir verið á því að við fengjum að starfa þarna áfram og allt yrði í góðu lagi. Ég held að það hafi enginn trúað því að við myndum hætta að styrkja íþróttirnar eða að þessu yrði lokað. Menn túlka þetta bara eins og þeir vilja, ef þeir túlka þetta sem hótun þá bara gera þeir það,“ segir Hermann og bætti því að hann skyldi ekki af hverju enginn hefði komið og rætt málin, t.d. varðandi vonda lykt.
„Af hverju hefur enginn komið og rætt við okkur ef það er svona mikið lykt af starfseminni? Það er komið aftan að okkur allan tímann. Það er einhver hulduher sem vinnur þarna á bak við tjöldin. Þetta var bara hryðjuverk, það átti bara að ráðast á þetta fyrirtæki og loka því. Ef þetta hefði haft eðlilegan aðdraganda þá hefði verið búið að áminna okkur og ræða við okkur.“ Hermann segir að tölvupósturinn hafi verið settur fram til þess að minna á það sem fyrirtækið er að gera, frekar en að um hótun væri að ræða.„Ég var orðinn pínu þreyttur á þessu þegar ég sendi þetta. Menn eru ekki að vinna í takt. Þegar maður telur sig hafa verið að vinna gott starf í bænum og fá svo svona viðbrögð, þá kannski fýkur í mann. Stundum þarf bara að láta vita af sér. Maður lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum án þess að segja eitt einasta orð.“ Hermann segir að fyrirtækið vilji starfa í sátt og samlyndi við alla aðila og reyna að byggja starfsemina upp á þessum fjórum árum.
Samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli og þvert á vilja heilbrigðiseftirlitsins
Magnús Guðjónsson, framkvæmdastjóri HES, sagði í samtali við Víkurfréttir að málið hafi ekki snúist um það hvort menn hefðu trú á þessum mengunarbúnaði eða ekki. „Við starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins vildum að fyrirtækið fengi leyfi í eitt ár til þess að prófa þennan búnað sem hreinsa á lykt úr útblæstrinum,“ Það hafi verið samþykkt á fundi heilbrigðisnefndar Suðurnesja. Þar sitja fimm fulltrúar frá sveitafélögunum á Suðurnesjum.
„Það kemur svo umsókn um áframhaldandi leyfi til fjögurra ára frá fyrirtækinu áður en þetta eina ár er hálfnað. Það var tekið fyrir á heilbrigðisnefndarfundi og samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli og þvert á vilja heilbrigðiseftirlitsins. Við töldum að það væri óábyrgt að gefa út fjögurra ára leyfi áður en væri búið að reyna á búnaðinn í þetta ár. Þetta var fyrst og fremst gert vegna óska fulltrúa Grindavíkur í heilbrigðisnefnd Suðurnesja. Fulltrúi Grindavíkur (Lovísa Hilmarsdóttir) sótti það mjög stíft að fyrirtækið fengi leyfi fjögur ár til viðbótar. Ég reifst og skammaðist á þessum fundi enda fannst mér þetta óeðlileg afgreiðsla af þeim ástæðum sem ég nefndi hér áður. Reynsla Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er sú að það sé alltaf mengun af fiskþurrkunarfyrirtækjum og er stefna okkar að þau eigi ekki heima inni í þéttbýli. Við ráðum þó engu, það er heilbrigðisnefndin sjálf sem er yfirvaldið.“ Magnús segir að nefndin og fulltrúi Grindavíkur hafi trúað á búnaðinn án þess að starfsmenn HES gerðu það.
„Svona starfsemi á ekki heima inni í þéttbýli. Það eru tvær fiskþurrkanir í Garðinum og þar eru eilífar kvartanir og vandamál í kringum þetta. Fólk einfaldlega kærir sig ekki um þessa lykt inni hjá sér. Við viljum að þessi fyrirtæki færi sig fjarri mannabyggð. Úti á Reykjanesi er kjörinn staður fyrir svona fyrirtæki,“ sagði Magnús.