Hornsteinn lagður að Íþróttaakademíu
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, lagði hornsteininn að byggingu Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ í dag.
Fyrirhugað er að kennsla hefjist við skólann þann 22. ágúst, og hafa áætlanir staðist að mestu þrátt fyrir að veðurfar í vetur hafi sett strik í reikninginn.
Árni tók til máls eftir að hafa lagt steininn og sagðist ekki vera í neinum vafa um að Akademían yrði mikil lyftistöng fyrir íþróttalíf, ekki einungis á Suðurnesjum heldur á landinu öllu.
Geir Sveinsson, framkvæmdastjóri Íþróttaakademíunnar, tók undir þau orð Árna er hann greindi frá stöðu mála í undirbúningi starfsins. Á næstunni verður skrifað undir formlegan samning við Háskólann í Reykjavík og þá verður Akademían einnig í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja um sérstaka afreksmannabraut. Samstarfið felur í sér að nemendur við FS, sem stunda keppnisíþróttir, fá bætta aðstöðu til að stunda íþrótt sína með námi, en fyrirmynd að slíku er sótt til hinna Norðurlandanna.
Námsskrá Akademíunnar er væntanleg á næstunni og er gert ráð fyrir að á milli 30 og 35 manns hefji nám í haust. Þegar hafa borist um 30 umsóknir um nám og er talið að sú tala geti farið allt upp í 60-70 áður en umsóknarfrestur rennur út í lok mánaðarins. Boðið verður upp á afar fjölbreytt nám sem felur í sér allt sem við kemur íþróttum og hreyfingu.
Geir minntist einnig á nemendagarðana sem eru að rísa í Njarðvík, skammt frá Akademíunni, en fyrstu áfangi þeirra, 12 íbúðir, verður tekinn í notkun um áramót.
Að lokinni formlegri athöfn var kaffisamsæti í byggingunni þar sem viðstaddir lituðust um og skoðuðu teikningar af fullgerðu húsinu sem voru til sýnis.
VF-myndir/Þorgils 1: Árni og Geir við hornsteininn. Árni heldur á múrskeiðinni góðu sem hann notaði við lagninguna. 2: Salur Íþróttaakademíunnar