Hörð gagnrýni á eftirlitsaðila og verktaka
Sigmar J. Eðvarðsson, fulltrúi D-lista í bæjarráði Grindavíkur er harðorður vegna ábyrgðar þeirra sem koma að hönnun, eftirliti og verktöku vegna framkvæmda á vegum bæjarins. Hann segir ábyrgð þeirra litla sem enga og komi þurfi í veg fyrir að bæjarfélgið verði fyrir milljónatjóni af þessum völdum. Þetta kemur fram í greinargerð sem Sigmar lagði fram með tillögu á síðasta fundi bæjarráðs.
Meirihlutanum finnst ómaklega vegið að eftirlitsaðila og verktaka.
Ákveðnar fráveituframkvæmdir voru til umfjöllunar á fundi bæjarráðs á miðvikudaginn og lagði fulltrúi D-lista fram bókun vegna málsins. Í henni segir að borist hafi kvartanir „vegna slakra vinnubragða hjá verktakanum sem vinnur þessa fráveituframkvæmd.“
Í framhaldinu lagði fulltrúi fram tillögu þess efnis að bæjarstjóra, ásamt skipulags- og bygginganefnd yrði falið að setja reglur um ábyrgð hönnunar-, og eftirlitsaðila og verktaka vegna framkvæmda á vegum Grindavíkurbæjar. Reglurnar yrðu látnar fylgja með útboðsgögnum.
Í greinargerð sem Sigmar lagði fram með tillögunni segir:
„Enn og aftur eru verktakar að koma sér undan því að vinna samkvæmt útboðslýsingu einstakra verka. Ýmsir ágallar eru að koma í ljós á verkum sem unnin hafa verið á síðustu árum í þessum geira.
Ábyrgð hönnunar-, eftirlitsaðila og verktaka er lítil sem engin.
Skerpa þarf á ábyrgð þessara aðila til að koma í veg fyrir að Grindavíkurbær verði endalaust fyrir miljóna tjóni af þessum völdum eins og nýleg dæmi sanna, fjölnotaíþróttahús, tjaldstæði og fráveituframkvæmdir. Með svona reglugerð minnkar sá möguleiki að utanbæjar verktakar undirbjóði verk og sleppi svo við að vinna samkvæmt verklýsingum vegna lélegs eftirlits.“
Tillagan var felld með tveimur atkvæðum gegn einu.
„Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá tæknideild, þá hefur verkið dregist, m.a. vegna fleygunnar, en kostnaðartölur standast samkvæmt tilboði. Meirihluti B og S lista gerir ekki athugasemdir við eftirlit með framkvæmdinni og finnst ómaklega að eftirlitsaðila og verktaka vegið. Meirihluti B og S lista leggur áherslu á vandað eftirlit með framkvæmdum hjá bæjarfélaginu og bendir t.d. á að eftirlit með Hópsskóla er alveg til fyrirmyndar,“ segir í bókun sem fulltrúar B og S lista lögðu fram vegna málsins.