Hópur pípulagningamanna skoðar eignir í Grindavík
Í ljósi aðstæðna hafa Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra borist tilkynningar um húseignir í Grindavík sem mögulega eru án hitaveitu. Samkvæmt fyrstu tilkynningum HS Veitna voru þetta á annað hundrað eignir.
Vinna fór strax í gang með Samtökum Iðnaðarins og Félagi pípulagningameistara um mögulega aðkoma þeirra að verkefninu, þ.e.a.s. að skipuleggja og kappkosta að frostverja eignirnar.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum HS Veitna hefur nú tekist að koma heitu vatni á töluverðan fjölda húseigna sem áður voru án hitaveitu.
Í dag er von á nýjum upplýsingum frá HS Veitum og koma enn betri upplýsingar um hvaða eignir er um að ræða sem eru án hita. Eftir það er fyrirhugað að ráðast í skoðun á þessum húsum með tilliti til frostvarna.
Almannavarnardeild hefur fengið til liðs við sig fjölda pípulagningamanna til að skoða þessi hús sem um ræðir. Því vildu Almannavarnir upplýsa íbúa í Grindavík að samband verður haft við þau sem eiga þessar húseignir og verður það vonandi gert í dag, þriðjudaginn 21. nóvember, símleiðis. Þegar farið verður í þessa skoðun er gert ráð fyrir að húsráðandi verði með í för. Stefnt er að því að hringja í þessa aðila og viljum við árétta að það verður haft samband af fyrra bragði, segir í tilkynningu Almannavarna.