Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hoppuðu á milli báta og kynntu Grindavík fyrir sjómönnum
Ljósmyndir af vef Grindavíkurbæjar.
Fimmtudagur 3. janúar 2013 kl. 10:48

Hoppuðu á milli báta og kynntu Grindavík fyrir sjómönnum

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, Þorsteinn Gunnarsson upplýsinga- og þróunarfulltrúi og Sigurður Kristmundsson hafnarstjóri heimsóttu níu skip í grindvíska flotanum í gær til þess að kynna Grindavíkurbæ fyrir sjómönnum. Um þriðjungur sjómanna á grindvíska flotanum býr í Grindavík og því er eftir miklu að slægjast að fá fleiri sjómenn til að flytja í bæinn. Þetta er annað árið í röð sem slík kynningarherferð fer fram en hún skilaði góðum árangri í fyrra með tilheyrandi útsvarstekjum fyrir bæinn, segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Lögð var áhersla á að kynna sjávarútvegsbærinn Grindavík og þá öflugu þjónustu sem bærinn býður upp á, afþreyingu og félagsstarf, atvinnumöguleika, húsnæðismál og hversu fjárhagslega sterkur bærinn er og margt fleira. Járngerði, fréttabréfi bæjarins, var dreift um flotann ásamt upplýsingum um sölumarkað fasteigna, byggingaverktaka og ýmislegt fleira.

Þá fóru þremenningarnir yfir ýmislegt sem búið er að gera frá síðustu heimsókn um borð í bátana en þá komu fram ýmsar óskir frá sjómönnum. Meðal annars er búið að lækka útsvar og veitugjöld frá síðasta ári þannig að fjárhagslegur ávinningur sjómanna að flytja hingað er töluverður. Leigumarkaður er virkari en áður og þá hafa atvinnumöguleikar maka aukist, aðallega í ferðaþjónustu. Þá er unnið að stórbættum almenningssamgöngum á árinu.

Að sögn Róberts fengu þeir mjög góðar móttökur um borð í skipunum, bæði í frystitogurum og línuskipum, sem flest eru gerð út af Þorbirni og Vísi. Sköpuðust skemmtilegar umræður í matsölum skipanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024