Hönnun nýs sundlaugarsvæðis í Grindavík
Íbúar Grindavíkur fá að taka þátt með sínum hugmyndum
Hönnun á nýju sundlaugarsvæði Grindvíkinga var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Grindavíkur 10. janúar en fundinn sátu sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, Eggert Sólberg Jónsson, og sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, Atli Geir Júlíusson.
Eggert sagði að hönnunarferlið hafi staðið yfir síðan í maí í fyrra. Það hófst með hugmyndasöfnun meðal íbúa og í framhaldinu unnu hönnuðir úr þeim hugmyndum sem bárust. Stefnt er á kynningu tillagnanna fyrir íbúum Grindavíkur um miðjan febrúar. Haft hefur verið samráð við ýmsa hagaðila, m.a. starfsfólk íþróttamannvirkja, íþróttakennara, UMFG, ungmennaráð (13–18 ára unglingar) og minna-Þrumuráð (10–13 ára börn).
Gert er ráð fyrir miklum breytingum á þeirri aðstöðu sem nú er til staðar samkvæmt þeim tillögum sem nú eru uppi. Það er svo í höndum bæjarstjórnar Grindavíkur að taka endanlega ákvörðun um tillögurnar en skv. ákvörðun bæjarstjórnar á síðasta ári á að hefjast handa við framkvæmdir innan þriggja ára frá ákvörðuninni. Auðvitað fer það svo eftir umfangi framkvæmda hversu langan tíma þær munu taka en áhersla verður lögð á að Grindvíkingar muni geta stundað sund í gömlu sundlauginni á meðan á framkvæmdum stendur.