Holtaskóla lokað og kennslu dreift um Reykjanesbæ
Umfangsmiklar viðgerðir í mörgum skólum bæjarins
Tekin var ákvörðu á dögunum um að loka Holtaskóla vegna loftgæða og byggingarframkvæmda. Kennsla í 1.–3. bekk er í íþróttahúsi Keflavíkur og kálfum við Holtaskóla. Í Hljómahöll og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru 4.–7. bekkur. Þá er skólastarf í 8.–10. bekk í Keili á Ásbrú.
Byggingarnefnd vegna rakaskemmda í stofnunum Reykjanesbæjar fundar stíft um þessar mundir en bregðast þarf við myglu og rakaskemmdum í nokkrum skólastofnunum í bæjarfélaginu.
Á fundi nefndarinnar nýverið var m.a. farið yfir kostnaðaráætlun, greiðsluflæði og verkáætlun vegna endurbóta á D-álmu og kjallara A-álmu Myllubakkaskóla á þessu ári. Ákveðið hefur verið að setja upp staðbundið loftræstikerfi í skólanum. Þá var jafnframt ákveðið á síðasta fundi nefndarinnar að nota klæðningu sem hönnuðir hafa lagt til að verði notuð. Óskað var eftir að fá útlitsteikningu með litasamsetningu samkvæmt tillögu skólastjóra, ásamt því að kanna hvort betra væri að vera með stálklæðningu á neðri hluta og sjá kostnaðarmun á læstri álklæðningu og stálklæðningu.
Á fundinum var einnig farið yfir frumdrög að endurbótum og breytingum á Holtaskóla. Einangra þarf skólann að utan. Á fundinum var rætt hvort hægt er að endurnýta klæðninguna sem er á byggingunni eða hvort kaupa þurfi nýja klæðningu að hluta eða öllu leyti.
Í Holtaskóla er unnið að lagfæringum á skemmdum undir gluggum á yngsta stigi til að koma í veg fyrir leka. Þá hefur verið ákveðið að setja upp staðbundið loftræstikerfi í Holtaskóla.
Á leikskólanum Gimli fundust rakaskemmdir í Útgarði. Verktaki hefur verið ráðinn til að vinna að lagfæringum en á meðan þeim stendur verða börnin færð á aðrar deildir skólans.
Á leikskólanum Heiðarseli er búið að fjarlægja skemmt byggingarefni og lagfæra skemmdir. Næstu skref eru að undirbúa allsherjar þrif á öllum skólanum og sýnatökur eru í undirbúningi.
Þá hefur kjallari í gamla barnaskólanum að Skólavegi 1 verið hreinsaður með þurrís og verið er að undirbúa að steypa gólf. Taka þarf upp dúk á efri hæðum og hreinsa þar.