Holskefla nauðungaruppboða á Suðurnesjum
Alls hafa um 220 fasteignir á Suðurnesjum verið seldar á nauðungaruppboði það sem af er þessu ári. Aukningin er gríðarleg frá árinu 2007 þegar 28 eignir voru seldar á nauðungaruppboði. Hún er einnig mikil á milli ára því allt árið í fyrra voru 94 eignir á Suðurnesjum seldar nauðungarsölu samkvæmt upplýsingum frá embætti Sýslumannsins í Keflavík.
Fyrir árið 2008 voru árlega seldar um 10 - 50 eignir á uppboði hér á Suðurnesjum. Um 220 fasteignir hafa þegar verið seldar á þessu ári eins og áður segir. Í Víkurfréttum í dag eru tæplega 200 eignir auglýstar til nauðungaruppboðs og hefur viðlíka fjöldi nauðungaruppboða aldrei áður verið auglýstur í einu lagi í blaðinu.
Allt árið í fyrra voru 94 eignir seldar á nauðungaruppboði. Árið 2008 voru 115 eignir seldar með nauðungasölu þannig að í samburði við síðustu ár er óhætt að segja að um holskeflu nauðungaruppboða sé að ræða.
Að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, sýslumannsfulltrúa, verða 11 eignir seldar framhaldssölu dagana 7. og 8 september næstkomandi. Þá er fyrirhugað að selja 182 eignir við byrjun uppboðs þann 9. september en við þá gerð er ákveðið hvort eignirnar verði endanlega seldar framhaldssölu. Þeir sem biðja um uppboðin í hverju tilviki ákveða það. Framhaldssala eignanna færi þá fram í byrjun október næstkomandi.
Byrjun uppboðs var síðast þann 4. júní sl. Að sögn Ásgeirs var mörgum málum frestað til 9. september með heimild í lögum sem sett voru í lok febrúar og heimiluðu sýslumanni að fresta uppboði í allt að 3 mánuði. Önnur mál sem tekin verða fyrir þennan dag eru ný mál sem komin eru á þetta stig nauðungarsölunnar. Ásgerir segir ekki hægt að fullyrða að þessu ástandi fari að ljúka eða draga úr því en frá árinu 2008 hafa verið seldar tæplega 430 fasteignir á Suðurnesjum.