Hólmsteinn GK hífður á land í kvöld
Hólmsteinn GK er kominn upp af botni Sandgerðishafnar eftir að hann sökk í gær í kjölfar þess að dragnótabáturinn Ásdís GK sigldi á hann í höfninni í Sandgerði. Hólmsteinn GK sökk á innan við 10 mínútum.
Björgunaraðgerðir gengu mun betur en menn þorðu að vona. Það bjargaði miklu að báturinn hékk í landfestum og lagðist því ekki alveg á hliðina við bryggjuna þar sem hann sökk. Það var því auðvelt að rétta bátinn af við bryggju seint í gærkvöldi. Hann settist því réttur á botninn þegar fjaraði út.
Snemma í morgun byrjuðu menn frá Köfunarþjónustu Sigurðar að þétta gatið sem kom á bátinn við áreksturinn. Það var 20x70 sm. þar sem perustefni Ásdísar GK fór í gegnum skrokk Hólmsteins GK.
Sigurður Stefánsson hjá Köfunarþjónustu Sigurðar sagði í samtali við Víkurfréttir nú í hádeginu að kranabílar kæmu síðdegis til Sandgerðis og gert væri ráð fyrir því að hífa Hólmstein GK á land í kvöld.
Myndir frá björgunaraðgerðum snemma í morgun.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson