Hollywoodmenn flýja fárviðri
Mikið brim og stórsjór út af strönd Reykjaness í gær varð til þess að aðstandendur myndarinnar Flags of Our Fathers fluttu landgönguprammana sem notaðir eru við tökur í var.
Prammarnir og flotbryggja sem hefur legið við kajann í Höfnum undanfarið voru flutt inn í Ósa og komið í festar fjarri brælunni þar sem þeir liggja enn, enda hefur veðrinu ekki slotað. Hollywoodmenn sáu sér þann kostinn vænstan að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og flýja veðrið og gekk flutningur vel. Urðu engar skemmdir á prömmunum.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta urðu mjög litlar tafir á tökum vegna þessarar uppákomu og hafa tökur gengið vel að mestu leyti. Athygli vekur að veðrið hefur ekki sett strik í reikninginn, en hingað til hefur ekki verið hægt að líkja saman aðstæðum á hitabeltiseyju í Kyrrahafi við íslenska veðráttu.
Á næstunni verður haldið til Krýsuvíkur þar sem eitt af aðalatriðum myndarinnar verður tekið upp, þegar hermenn reistu bandaríska fánann á toppi eldfjallaeyjunnar Iwo-Jima.
VF-myndir/Þorgils