Hollywood-sprengiefni í Sandvík
Um 700 kíló af Hollywood-sprengiefni verða notuð og sprengd upp í Sandvík þegar tökur hefjast á stórmyndinni Flags of our Fathers. Fulltrúar framleiðanda myndarinnar, Malpaso Productions,funduðu með slökkviliði og lögreglu í dag á tökustað myndarinnar í Sandvík.
Kvikmyndatökumenn þurfa fara eftir ákveðnum stöðlum hvað varðar höndlun og geymslu sprengiefnisins en ákveðnir sprengjugámar eru notaðir í slíkt. Stórvirkar vinnuvélar eru nú að hefja vinnu við að ryðja svæði og laga vegi svo flutningur á efninu verði sem öruggastur.
Skiljanlegt er að við stórmyndir sem þessar þarf töluvert af púðri til þess að líkja við alvöru sprengjum og skothríðum sem dundu á bandarískum hermönnum þegar þeir hófu innrás á eyjuna Iwo Jima í Japan árið 1945.
Gott samstarf er á meðal kvikmyndatökumanna, slökkviliðs og lögreglu svo ekki er við því að búast að öryggi starfsfólks verði ábótavant.
Nú þegar stutt er í tökur á myndinni hafa farið sögur á kreik um að Clint Eastwood sé kominn til landsins en samkvæmt heimildum Víkurfrétta er hann ekki kominn hingað til lands og er ekki væntanlegur fyrr en í byrjun ágúst mánaðar.
Myndin: Frá fundinum í dag
[email protected]