Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hollvinir HSS mótmæla niðurskurði
Mánudagur 1. febrúar 2010 kl. 13:10

Hollvinir HSS mótmæla niðurskurði


Hollvinir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirhuguðum niðurskurði á stofnuninni er harðlega mótmælt. Þeir segja heilbrigðisþjónustu við íbúa Suðurnesja færða aftur um áratugi með niðurskurðinum.
Þá er bent á að ljóst hafi verið lengi að HSS hafi búið við lægst framlag allra heilbrigðisstofnana á landinu miðað við fjölda íbúa.
„ Það veldur okkur þungum áhyggjum að þær konur sem eru í áhættu í meðgöngu og fæðingu þurfi að leita til Reykjavíkur eftir þjónustu. Þá verður skurðstofu einnig lokað sem er grunnurinn að þjónustu við fæðandi konur og í raun grunnurinn að allri starfsemi
HSS. Þessu fylgja uppsagnir á annan tug starfsmanna á því landssvæði þar sem atvinnuleysi er mest. 
Jafnframt er lagt til að vaktþjónusta lækna verði dregin saman sem mun leiða til aukinna ferða Suðurnesjamanna til Reykjavíkur til að fá aðstoð sökum minniháttar veikinda svo sem hálsbólgu og kvefpestar. Við það getum við íbúar á Suðurnesjum ekki við unað, að vera sett enn einu sinni skör lægra en aðrir landsmenn hvað heilbrigðisþjónustu varðar,“ segir m.a. í yfirlýsingunni, sem birt er í heild sinni hér að neðan:


Hollvinir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja mótmæla
 
Sú stefnumörkun fyrrverandi heilbrigðisráðherra að skipa fyrir ári síðan samstarfsnefndir fagaðila og neytenda til samstarfs um hvernig skyldi staðið að fyrirsjáanlegum sparnaði í heilbrigðiskerfinu vakti vonir um að þær ákvarðanir sem teknar yrðu væru þá teknar á faglegum og sanngjörnum forsendum. 
Árangur náðist á síðasta ári þar sem sátt var um hvernig að skyldi staðið. Í tilfelli Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja náðist sá árangur fyrst og fremst sökum þess framlags sem starfsfólk stofnunarinnar lagði af mörkum, sem skilaði 5,2% lækkun útgjalda á árinu 2009.  Fyrir það verður aldrei fullþakkað þeim starfsmönnum sem þá tóku
á sig mikla kjaraskerðingu. Þarna var farið eins nálægt þeim mörkum sem mögulegt var til að ekki kæmi til skerðingar á þeirri þjónustu sem veitt var. 
 
Lengi hefur verið ljóst að HSS hefur fengið lægst framlag allra heilbrigðistofnanna á landinu miðað við fjölda íbúa er þjónustu hennar nýta og hefur sú staðreynd ekki verið véfengd af heilbrigðisráðuneytinu svo vitað sé. Þá sýna skýrslur að þegar borinn er saman kostnaður á sambærilegum sjúkrahúsum þá eru flest verk hagkvæmast unnin á HSS.  Þrátt fyrir þetta þá hafa heilbrigðisráðherrar eftir heilbrigðisráðherra vanrækt að sjá til þess að HSS fái nauðsynlega fjárveitingu til þess að tryggja Suðurnesjamönnum heilbrigðisþjónustu í samræmi við íbúafjölda og þörf íbúanna fyrir þjónustu.  

Nú gerir heilbrigðisráðuneytið kröfu um 86,5 milljóna lækkun á útgjöldum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á árinu 2010. Þessu mótmælum við hollvinir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja harðlega um leið og viljum benda á að samstarfsnefndin sem skipuð var til ráðuneytis hefur ekki verið kölluð saman nema einu sinni frá því að núverandi heilbrigðisráðherra tók við störfum, þrátt fyrir endurteknar óskir okkar. 

Samstarfsnefndin er skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, stjórnendum HSS, hollvinum HSS og fulltrúum sveitarfélaga á Suðurnesjum og hefur það hlutverk samkvæmt skipunarbéfi að „útfæra samhæfingu starfsemi Heilbrigðistofnunar Suðurnesja og meginstarfsemi Landspítala. Tekið skal tillit til stöðu Heilbrigðistofnunar Suðurnesja í nærsamfélagi og hafa skal í útfærslunni hliðsjón af ósk bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ um að taka í ríkara mæli þátt í rekstri heilsugæslunnar í bæjarfélaginu.” 
 
Ljóst er að nái það fram að ganga sem nú er lagt til af ráðuneyti heilbrigðismála um skerðingu þjónustu á HSS, mun heilbrigðisþjónusta við Suðurnesjamenn verða færð aftur um áratugi. 
Það veldur okkur þungum áhyggjum að þær konur sem eru í áhættu í meðgöngu og fæðingu þurfi að leita til Reykjavíkur eftir þjónustu. Þá verður skurðstofu einnig lokað sem er grunnurinn að þjónustu við fæðandi konur og í raun grunnurinn að allri starfsemi HSS. Þessu fylgja uppsagnir á annan tug starfsmanna á því landssvæði þar sem atvinnuleysi er mest. 

Jafnframt er lagt til að vaktþjónusta lækna verði dregin saman sem mun leiða til aukinna ferða Suðurnesjamanna til Reykjavíkur til að fá aðstoð sökum minniháttar veikinda svo sem hálsbólgu og kvefpestar. Við það getum við íbúar á Suðurnesjum ekki við unað, að vera sett enn einu sinni skör lægra en aðrir landsmenn hvað heilbrigðisþjónustu varðar. 

Allt er þetta gert án þess að fyrir liggi rökstuðningur fyrir því að þetta muni á nokkurn hátt stuðla að sparnaði fyrir ríkissjóð en ljóst er að þetta mun verða til mikils kostnaðarauka fyrir neytendur þjónustunnar þar sem sjúklingar verða að sækja þjónustu til Reykjavíkur.

Við undirrituð fulltrúar hollvina Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samstarfsnefndinni skorum á Suðurnesjamenn alla að standa saman og berjast fyrir því að tryggja sjálfsagða heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Þá minnum við sveitarstjórnarmenn, alþingismenn, ráðherra og ríkisstjórn á skyldu þeirra við íbúa Suðurnesja.
 
Eyjólfur Eysteinsson, tilnefndur af stjórn Félags eldri borgara á
Suðurnesjum
Sólveig Þórðardóttir,  tilnefnd af stjórn Syrktarfélags
Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.“
---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/pket - Frá starfsmannafundi á HSS með þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni.