Hollvinasamningur Þórkötlu hefði átt að koma miklu fyrr
Allar dyr lokaðar, engir gluggar opnir og mygla byrjuð að myndast inni á baðherbergi
„Það er heldur seint í rassinn gripið þegar meirihluti Grindvíkinga er búinn að tæma algjörlega og afhenda eignirnar sínar, það hefði átt að kynna þennan hollvinasamning strax í sumar þegar Grindvíkingar seldu Þórkötlu eignir sínar,“ segir Grindvíkingurinn Sigurjón Veigar Þórðarson. Hann átti erindi í Grindavík á dögunum og kom við á gamla heimilinu, við honum blasti ekki fögur sjón. Hann kíkti inn um alla glugga, sá að allar hurðar voru lokaðar, enginn gluggi opinn og inni á baðherberginu var gufa vegna hita og farnir að myndast myglublettir í loftinu.
Sigurjón hefði viljað sjá hollvinasamning Þórkötlu miklu fyrr í ferlinu.
„Ég hefði pottþétt nýtt mér þennan hollvinasamning ef hann hefði verið í boði þegar við ákváðum að selja húsið okkar í Grindavík. Við hefðum geymt hluta af búslóðinni okkar í húsinu og komið af og til í húsið til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi og halda tengingunni við heimilið, Grindavík og samfélagið. Það sem er sorglegt í þessu öllu er að alltof margir Grindvíkingar urðu að farga hluta og jafnvel mestu af búslóð sinni því það kom henni ekki fyrir í nýju eigninni. Íbúar voru heldur ekki í sálarjafnvægi til að þurfa að taka þær ákvarðanir að velja og hafna persónulegum eignum og henda mörgu sem það hefði verið notað þegar viðkomandi væri kominn í betra búsetuúrræði. Ég og mjög margir hreinlega hrópuðum eftir að þetta yrði ekki gert svona og það var vitað mál að samfélagið eins og við þekktum myndi hverfa á brott við þennan gjörning. Samfélagið er jú fólkið sem bjó í Grindavík 10. nóvember og ríkið hefði átt að gera Allt sem í þeirra valdi stóð til að veita þessu fólki von, von um að það ætti afturkvæmt til að byggja upp þetta gjöfula og þjóðhagslega hagkvæma samfélag sem þarna bjó, af hörku duglegu fólki.
Þrátt fyrir varnaðarorð var það ekki gert og öll tengsl slitin á milli fólks og húseigna með þeim reglum sem fólki var sett. Athugum það líka að búseturéttur í þessum húsum var og er nákvæmlega einskis virði nema því fólki sem bjó þarna sem gerir þetta allt sama ennþá grátlegra og var svo fyrirsjáanlegt öllu rétt hugsandi fólki.
Ég fagna því þó að þessi samningur verði í boði, þó hann sé að koma allt of seint fyrir flesta, það er svo margt sem hefur farið úrskeiðis í öllu þessu ferli, það hlýtur að verða gerð bíómynd um þennan atburð, ferlið og ruglið sem fólk er búið að upplifa og hefur þurft að láta bjóða sér. Það hefði verið miklu betra ef fólk hefði getað farið til Grindavíkur, heimsótt húsið sitt, viðhaldið tengingunni og geymt það sem ekki komst fyrir í nýja bráðabirgðahúsnæðinu.“
Tjón vegna myglu
Tjón varð á húsi Sigurjóns og fjölskyldu hans og hefur hann verið í sambandi við NTÍ og Þórkötlu vegna málsins.
„Ég beið og bíð ennþá eftir tjónaskýrslu frá NTÍ. Þegar ég var búinn að selja kom svar frá NTÍ, mig varðaði ekkert um tjónið fyrst ég væri búinn að selja. Ég mótmælti því nú harkalega og sagðist eiga forkaupsrétt að húsinu á verði sem miðast við þessa skýrslu og því skipti þetta mig miklu máli. Sá sem ég var í sambandi við hjá NTÍ benti þá á Þórkötlu. Ég setti mig strax í samband við félagið, þeir sögðust senda mér skýrsluna þegar hún kæmi en ekkert bólar á skýrslunni enn.
Gólfplatan seig um 1,5 - 2,5 cm í hluta hússins. Það kom brotliður í steyptan burðarbita sem liggur eftir endilöngu húsinu og augljóst að hluti hússins seig. Ofnakerfið hætti að halda þrýstingi og greinilega einhvers staðar leki. Verkfræðingur á vegum NTÍ sagði að púðinn hefði sennilega verið illa þjappaður og það væri ástæðan. Ég bað hann þá um að taka kjarnasýni á fleiri stöðum en bara þar sem sigið var og viti menn, það var ekkert að púðanum. Það var gert lítið úr öllum mínum spurningum í því ferli og allt niðurspilað.
Ég átti erindi í Grindavík um helgina og ákvað að taka hring í kringum húsið mitt og við mér blasti ekki fögur sjón! Ofnakerfið var aldrei skoðað en það er greinilega mikill raki í útveggnum við gluggann á baðinu. Veggurinn er farinn að springa og það var frosin rönd utan á honum sem segir mér að það er leki á ofnakerfinu á þessum stað líklegast, eitthvað sem sérfræðingar NTÍ slógu strax út af borðinu. Ég sagði þeim að ofnakerfið héldi ekki þrýstingi eftir 10. nóvember en það var ekki kannað frekar. Eftir tjónið 10. nóvember bað ég strax um að lagnakerfið yrði skoðað sem og þakið því það fór að leka. NTÍ sendi sérfræðing tvisvar sinnum með sama laserinn, hann gat auðvitað ekki skoðað lagnir né þak og eftir mörg símtöl og eftir nokkra mánuði fékk ég framhaldsskoðun en hef ekki ennþá fengið skýrslu.
Það er sorglegt að horfa upp á þetta og ég spyr mig hvað verið sé að gera með almannafé. Ríkið er að eyða tugum milljarða í að fjárfesta í þessum húsum en svo er ekkert hugsað um þau. Mitt hús er að grotna niður og mun eyðileggjast ef menn fara ekki að vakna upp af þessum blundi. Á sama tíma er verið að eyða tugum milljóna í hverjum mánuði til að halda úti lokunarpóstum sem virka ekki einu sinni því allir sem vilja geta komist inn til Grindavíkur! Það er hreinlega óskiljanlegt að það séu ekki a.m.k. einn til tveir starfsmenn að ganga um þessi hús og lofta út og líta til með þeim. Það er ástæða fyrir því að hús hafa glugga. Ég er nú ekki langskólagenginn í myglufræðum en að loka öllum hurðum í húsinu, loka öllum gluggum og botnkynda er ávísun á eyðileggingu, það segir sig sjálft. Ég get orðið brjálaður þegar ég hugsa um þetta,“ segir Sigurjón.
Of seint í rassinn gripið
„Samfélagið okkar var sent út úr bænum án vonar um að snúa aftur í húsin sín. Fólk var neytt til að tæma húsin og setja Grindavíkina í baksýnisspegilin með afhendingarkröfum Þórkötlu. Við kölluðum eftir því að fá að sinna húsunum okkar og halda tengingu við þau gegn því að mögulega greiða af þeim gjöld eða eitthvað slíkt, og hafa þannig þó vonina um að snúa til baka. Það var skellt algjörum skollaeyrum við því, sem er svo vitlaust að það nær ekki nokkurri átt út frá endursöluvirði eignasafnsins, hverjir voru líklegustu kaupendurnir af þessum eignum seinna meir? Nú akkúrat þetta fólk. Nú grotnar þetta bara niður og verður algjörlega verðlaust,” segir Sigurjón og bætir við að það hefði verið hægt að standa miklu betur að málum en vonar að „betra er seint en aldrei“ muni eiga við.
„Auðvitað ætti Grindvíkingurinn að geta gist eina og eina nótt og þannig haldið tengingu við heimilið og bæinn sinn en að koma með þennan samning núna þegar stór meirihluti Grindvíkinga er búinn að selja og henda húsgögnum sem það hefur ekki pláss fyrir á nýja heimilinu, er hugsanlega of seint en vonandi ekki. Til hvers ættum við að gera svona hollvinasamning núna þegar við erum búin að tæma húsið? Eigum við að fara slá garðinn og bera á grindverkið, og fáum í raun ekkert á móti? Það voru stór mistök sem voru gerð með framkvæmdinni á þessu Þórkötludæmi, það er eins og markmiðið hafi verið að slíta á naflastrenginn milli Grindvíkingsins og heimabæjarins. Betra er seint en aldrei segir samt gott orðatiltæki og ég vona að þeir sem réðu þessu komi fram og viðurkenni mistök sín, þetta var svo fyrirsjáanlegt að það er grátlegt. Nú þarf virkilega að grafa djúpt og koma með eitthvað útspil sem gefur fólki von. Þótt við höfum tæmt húsið væri ég meira en til í að reyna koma okkur upp aðstöðu svo við getum dvalið eitthvað í húsinu. Nú þarf bara að fara að kveikja vonarneista hjá brotnum Grindvíkingum. Eitthvað jákvætt sem við getum byggt á. Þetta er allt búið að vera svo þunglamalegt og klaufalegt í allri framkvæmd. Ég veit að mistökin sem hafa verið gerð verða ekki tekin til baka, en lærum af þeim og reynum að gera allt til þess að Grindavíkin sem okkur þykir svo vænt um eigi bjarta framtíð með flestu af því góða fólki sem þar bjó 10. nóvember 2023,“ sagði Sigurjón að lokum.