Höldum áfram kraftmikilli uppbyggingu Keilis
-segir Kjartan Már Kjartansson, nýr stjórnarformaður Keilis
„Stofnun Keilis fyrir 11 árum markaði ákveðin tímamót í menntasögu Suðurnesja og nú er fjölbreytt nám á háskólastigi í boði á heimaslóðum. Keilir er verkefni sem vonandi mun hafa mikil áframhaldandi áhrif á uppbyggingu samfélagsins á Suðurnesjum,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ en hann er nýr stjórnarformaður Keilis á Ásbrú og skipaður af Háskóla Íslands.
Kjartan segir að starfsmenn og stjórnendur Keilis hafi lyft Grettistaki á upphafsárunum og innleitt ýmsar nýjungar í íslenskt skólastarf sem tekið hefur verið eftir. Þar hafi Árni Sigfússon, fráfarandi stjórnarformaður, og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, verið í fararbroddi.
„Það er ætlun mín, sem fyrrverandi skólamanns og nýs stjórnarformanns Keilis, að halda áfram kraftmikilli uppbyggingu í samráði við starfsfólk, nemendur og eigendur Keilis,“ sagði Kjartan Már.