Höfum brugðist öllu samfélaginu hér suðurfrá
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, hefur sent öllum þingmönnum og ráðherrum bréf þar sem hann lýsir ástandinu á Suðurnesjum og hvernig svæðinu er að blæða út. Hann bendir á fréttir um fjölda nauðungarsala á Suðurnesjum og segir m.a.: Í upphafi skólaársins vakna fleiri börn á Suðurnesjum við angist, kvíða og reiði foreldar sinna í garð okkar sem eigum að gæta hagsmuna samfélagsins og sjá til þess að allir hafi húsaskjól, mat og vinnu. Við höfum brugðist þessum börnum, fjölskyldum þeirra og öllu samfélagin hér suðurfrá.
Þá segir síðar í bréfinu: Ég spyr okkur, hvað erum við að gera? Núna verðum við að taka höndum saman, láta pólitík lönd og leið, það eina sem skiptir máli er atvinna og framleiða vöru til útflutnings, framleiða og vinna okkur út úr kreppunni. Án atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum verður ekki hægt að hlúa að hag fólksins, fjölskyldurnar eru að tvístrast og þeim blæðir út af þeirri einföldu ástæðu að við sem eigum að bera hag þess fyrir brjósti erum að bregðast. Stöndum okkur ekki í stykkinu.
Bréfið til þingmanna og ráðamanna þjóðarinnar er birt í heild sinni hér að neðan:
Sæl og blessuð alþingismenn og ráðherrar.
Það eru óhuggulegar staðreyndirnar þegar þær blasa við mér blákaldar í dagblöðunum, eins og meðfylgjandi frétt í DV í gær og ég spyr sjálfan mig, „Hvað höfum við verið að gera?
Ég held að við höfum öll talað nóg um atvinnumálin á Suðurnesjum, bent hvert á annað og árangurinn er met á öllum stigum þeirrar mælistiku sem við viljum ekki mæla okkur við.
Nú er komið að því að athafnir komi í stað orða. Lítum hvert og eitt í eigin barm og sjáum hvað við getum gert til að koma lífi fólksins á Suðurnesjum í eðlilegt horf. Í upphafi skólaársins vakna fleiri börn á Suðurnesjum við angist, kvíða og reiði foreldar sinna í garð okkar sem eigum að gæta hagsmuna samfélagsins og sjá til þess að allir hafi húsaskjól, mat og vinnu. Við höfum brugðist þessum börnum, fjölskyldum þeirra og öllu samfélagin hér suðurfrá.
Tekjur sveitarfélaganna minnka, kostnaður vex og spurning hvenær við neyðumst til þess að taka upp hnífinn og skera niður þjónustuna, segja upp fólki, kennurum, fóstrum, starfsmönnum íþróttahúsa og þjónustumiðstöðva, lækka þjónustustigið. Eða eigum við að hækka skattana á íbúunum 1100 sem eru atvinnulausir eða þeim tæplega 2000 sem eru að missa húsin sín, hefur sá vasi eitthvað meira að gefa? Ég spyr aftur, hvað erum við að gera fyrir þetta fólk?
Fjölda fyrirtækja er haldið gangandi á Suðurnesjum í þeirri von að atvinnulífið komist af stað. Þegar þau fara að falla hvert af öðru þá hættum við líka að kippa okkur upp við þá staðreynd að nauðungarsölum á íbúðum á Suðurnesjum mun áfram halda að fjölga og við setjum ný met á það stiku. Við hættum að gera greinamun á því hvort hátt á annað þúsund íbúar í greiðsluþoli verði 4 eða 5000. Svona eins og 500 milljónir eða 50 milljarðar útrásarvíkinganna sem voru svo hverstakslegar tölur að það skipti ekki máli hvor talan var notuð.
Ég spyr okkur, hvað erum við að gera? Núna verðum við að taka höndum saman, láta pólitík lönd og leið, það eina sem skiptir máli er atvinna og framleiða vöru til útflutnings, framleiða og vinna okkur út úr kreppunni. Án atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum verður ekki hægt að hlúa að hag fólksins, fjölskyldurnar eru að tvístrast og þeim blæðir út af þeirri einföldu ástæðu að við sem eigum að bera hag þess fyrir brjósti erum að bregðast. Stöndum okkur ekki í stykkinu.
Hvaða tækifæri bíða okkar sem við öll á einn eða annan hátt gætum með samstæðum vilja komið í hús. Ég nefni nokkur.
• Álver, virkjanir og línuframkvæmdir skapa strax 10.000 (tíuþúsund) ársstörf.
• Gagnvar á Ásbrú, er að fara í þrot, skapa fjölda nýrra starfa
• Flugverkefni skapar 200 manns atvinnu
• Heilbrigðisþjónusta fyrir erlendan markað skapar 300 störf (núna eru nýjar skurðstofur í byggingu en nýju skurðstofurnar á HSS sem kostuðu 200 milljónir eru lokaðar og hjúkrunarfólkið situr heima á 12 mánaða launum)
• Allar tillögurnar sem fólk þorir ekki lengur að koma með fram í dagsljósið að ótta við móttökurnar.