Höfnuðu 320 milljóna króna tilboði í Ramma
-Áður komið tilboð upp á 340 milljónir sem ekki tókst að fjármagna
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur hafnað kauptilboði í Seylubraut 1 í Innri Njarðvík. Um er að ræða húsnæði sem kennt er við Ramma og hýsir í dag safngeymslur Byggðasafns Reykjaness og slökkviliðsminjasafn. Brunabótamat hússins er 444,6 milljónir króna en fasteignamatið 175 milljónir króna.
Tilboðið hljóðaði upp á 320 milljónir með skilyrðum. Því var hafnað, m.a. á grundvelli skilyrða, segir í svari Reykjanesbæjar við fyrirspurn blaðsins. Fyrr hafði tilboð upp á 340 milljónir borist í eignina, en kaupin náðu ekki í gegn vegna erfiðleika við fjármögnun.
Fjórir aðilar hafa sýnt eigninni áhuga, sem nú er til sölu hjá öllum fasteignasölum í Reykjanesbæ.
Heildarstærð hússins er liðlega 4000 fermetrar. Húsið er í þremur fastanúmerum sem eru iðnaðarhús upp á 1044,5m², iðnaðarhús og sérhæfð bygging samtals 2879,1m², þar af 260m² milliloft. Skrifstofa samtals 168m². Húsið verður selt sem ein fasteign. Húsið er á 14.490m2 leigulóð á frábærum stað við Reykjanesbrautina. Í auglýsingu fyrir fasteignina er sagt: „Húnæðið er tilvalið fyrir m.a. stórmarkað, byggingavöruverslun eða bílaleigu. Staðsetningin er með besta auglýsingagildi sem hægt er að fá í Reykjanesbæ, allir sem koma og fara úr landinu aka fram hjá húsinu“.