Fréttir

Höfðu glugga lokaða vegna mengunar
Töluverðan reyk lagði frá kísilveri United Silicon í morgun. Myndin var tekin um klukkan 10 í morgun. VF-mynd/hilmarbragi
Fimmtudagur 16. febrúar 2017 kl. 10:55

Höfðu glugga lokaða vegna mengunar

- Brunalykt frá kísilveri United Silicon í Helguvík fannst í nágrenninu

Íbúar í nágrenni Helguvíkur kvörtuðu margir hverjir yfir lyktarmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík í gærkvöld. Íbúi í Heiðarhverfi sem Víkurfréttir ræddu við segir lyktina hafa verið það sterka að ekki hafi verið hægt að vera lengi úti við. „Ég hugsaði með mér að það væri ekki séns að fara út að hlaupa í þessari mengun,“ sagði hann. Þá var annar íbúi í Reykjanesbæ sem ók um Reykjanesbraut fyrir ofan Reykjanesbæ um kvöldmatarleytið í gær og hélt að kviknað væri í bílnum, svo sterk var brunalyktin. Eftir athugun kom í ljós að ekkert var að bílnum. Þá fannst lyktin inni á heimili þó svo að gluggar væru lokaðir.

Íbúar tjáðu sig um mengunina á Facebook í gærkvöld. Einn íbúi skrifaði á Facebook-síðuna Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri: Gjörsamlega ólíft fyrir utan hjá mér. Þeir sem opna út þurfa vinsamlegast að hafa hraðar hendur til að loka strax aftur. Allir gluggar harðlokaðir.

Public deli
Public deli

Annar íbúi skrifaði: Mikið svakalega er þetta óþolandi. Núna er ég skrifa þetta kl. 18.40 þann 15. febrúar þá er allt angandi af skítafýlu úr þessari blessaðri kísilverksmiðju hjá United silcon í Helguvík. Ég vona að ráðamenn sem vildu ólmir planta þessu ógeði hér rétt við bæjardyrnar séu ánægðir með þessa framkvæmd! Þetta er óþolandi og ég SÆTTI MIG EKKI við þetta ástand að ég geti ekki leyft mér að opna hér glugga á heimilinu mínu vegna skítastækju. Hvet alla sem finna þessa skítafýlu að senda inn ábendingu á Umhverfisstofun.