Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HMY Airways hættir við Íslandsflugið vegna Íraks-deilunnar
Þriðjudagur 11. febrúar 2003 kl. 00:35

HMY Airways hættir við Íslandsflugið vegna Íraks-deilunnar

Kanadíska flugfélagið HMY hefur ákveðið að fella niður allt flug til Evrópu og þar á meðal Íslands vegna hugsanlegra stríðsátaka í Írak. „Vegna yfirvofandi stíðs við Persaflóa og hugsanleg hryðjuverk hefur mér verið falið af yfirstjórn og eiganda að fella niður niður öll flug til Íslands og Bretlands frá og með 10. mars n.k. Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir okkur hér í Kanada þar sem við sáum fram á aukin samskipti við Ísland. Þessar upplýsingar bárust okkur s.l. föstudag,” segir í tilkynningu HMY til umboðsaðila félagsins í Keflavík, Steinþórs Jónssonar.Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Steinþóri Jónssyni
Mánudagskvöldið 10. febrúar kl.18,37 barst undirrituðum umboðsmanni HMY á Íslandi fyrst tölvupóstur frá ferðaskrifstofu HMY um að allt flug flugfélagsins á milli Evrópu og vesturstrandar Kanada frá og með 10. mars n.k. verði fellt niður þannig að síðasta flug til Íslands verði 3. mars n.k og síðasta flug til Kanada þann 5. mars. Allar flugferðir eftir það skv. vetaráætlun til 30. apríl eru þar með fellar niður og ákvörðun um sumaráætlun frestað til 28. febrúar n.k.

Einnig var tilkynnt að allir farþegar sem bókað eiga flug með HMY eftir 10. mars fái flugmiða sína endurgreidda að fullu. Þá mun þeim farþegum sem þegar hafa ferðast með flugfélaginu og eiga heimferð eftir 10. mars verða útvegað far aftur til síns heima.

Nokkrum klukkustundum síðar barst undirrituðum tölvupóstur annars vegar frá Mel Crothers markaðsstjóra og forstjóra ferðaskrifstofu HMY og James Westmacott aðstoðarforstjóra HMY um ástæður þessarar stóru ákvörðunar.

Í bréfi Mel sagði m.a.
„Vegna yfirvofandi stíðs við Persaflóa og hugsanleg hryðjuverk hefur mér verið falið af yfirstjórn og eiganda að fella niður niður öll flug til Íslands og Bretlands frá og með 10. mars n.k. Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir okkur hér í Kanada þar sem við sáum fram á aukin samskipti við Ísland. Þessar upplýsingar bárust okkur s.l. föstudag.”

James Westmacott sagði í sínum skilaboðum m.a.
„Ég vitna í samræður okkar fyrr í dag. Ég ítreka vonbrigði mín yfir þeirri ákvörðun okkar að afturkalla flugferðir til Keflavíkur og Manchester eftir 5. mars n.k. Þann 7. febrúar unnum við enn að skipulagningu á sumarferðum til Evrópu og höfðum þann dag móttekið m.a. staðfestingu á afgreiðsluleyfi okkar í Glasgow og Róm. Eins og við ræddum um í heimsókn þinni myndu öll flugin millilenda í Keflavík og hlökkuðum við til að þjóna íslenskum markaði í miklum mæli.

Eins og Mel benti á í samskiptum ykkar þurftum við að gera alvarlega endurskoðun á auglýsingaherferð okkar vegna óvissu um Evrópu markaðinn sem kemur til af ástandinu í Írak og öðrum öryggisþáttum. Hefur því verið tekin sú ákvörðun um að sinna nú markaðnum í Norður-Ameríku og til lengri tíma litið þjónusta Asíu markaðinn.

Ég er þakklátur fyrir alla fyrirhöfnina sem þú hefur lagt á þig fyrir HMY og þá frábæru vinnu sem þú hefir unnið við markaðsetningu frá Keflavík.

Við komum til með að gera okkar besta fyrir þá farþega sem ferðast fram til 5. mars.
Enn og aftur þykir mér fyrir þessari ákvörðun og skil mjög vel vonbrigði þín yfir þessari niðurstöðu bæði útfrá viðskiptalegu og persónulegu sjónarmiði.”



Mjög brugðið við þessa tilkynningu
Greinilegt er að flugfélagið vill fyrirbyggja að lenda í hringiðju stríðsumræðu sem án efa hefur áhrif á bókanir og markaðssetningu flugfélagsins í Evrópu og því tekið þá erfiðu ákvörðun, þrátt fyrir margar fullbókaðar velar, að fella niður flug til Evrópu í það minnsta fram á sumar.

Mér sem umboðsmanni HMY á Íslandi er mjög brugðið við þessa tilkynningu í ljósi þess að flug HMY var þegar komið í fullan gang og hlotið góð viðbrögð hér á landi. Á fundi sem undirritaður átti við stjórnendur flugfélagsins fyrir aðeins rúmum tveimur vikum voru umræður á allt öðrum nótum og forráðamenn flugfélagsins með allt önnur áform en tilkynning þeirra ber nú með sér. Þar á meðal stóð til að fjölga flugferðum til Evrópu og vinna enn frekari markað hér á Íslandi. Mér þykir því leitt að þurfa að tilkynna viðskiptavinum flugfélagsins þessa ákvörðun HMY og vona að þeir fái farsæla lausn sinna mála.

Á síðustu árum hef ég lagt mig fram við að byggja upp flugsamskipti milli Íslands og Kanada og höfðu síðustu vikur lofað mjög góðu um framhaldið í þeim efnum og m.a. opnað augu annara flugfélaga og einstaklinga um þetta tækifæri sem hér um ræðir. Í þessari stöðu væri því auðvelt að leggja upp laupanna og hætta framtíðarsýn um flug milli Íslands og Kanada og hef tekið þá ákvörðun að fylgja þessu máli enn fastar eftir og gera mitt besta við að snúa vörn í sókn.

Virðingarfyllst,

Steinþór Jónsson
Umboðsmaður HMY á Íslandi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024