Hlutu dóm fyrir skattsvik og bókhaldsbrot
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karl og konu á Suðurnesjum til skilorðbundinnar fangelsisvistar fyrir skatta-, bókhalds-, og hegningarlagabrot. Þá er þeim jafnframt gert að greiða samtals sjö milljónir króna sekt vegna þessa.
Ákærðu ráku þjónustufyrirtæki á árunum 2001 til 2004. Samkvæmt dómsorði munu þau hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögbundið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn. Konan hefur ekki áður sætt refsingu sem samkvæmt sakavottorði hlaut maðurinn tveggja ára skilorð árið 2000 vegna brota gegn lögum um tekju- og eignaskatt, tekjusaktt sveitarfélaga og almennum hegningarlögum.
Konunni er gert að sæta tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára og 3,5 milljóna króna í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms en sæta ella fangelsi í þrjá mánuði.
Manninnum er gert að sæta fangelsi í fimm mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára. Jafnframt að greiða sömu sektarupphæð og konan eða sæta fangelsi í þrjá mánuði ella.
Vanoldinn virðisaukaskattur af rekstri hinna ákærðu nam tæpum 3,5 milljónum króna.