Hljómar í steininn
Kjartan Már Kjartansson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ hefur lagt fram tillögu um að reist verði stytta af hljómsveitinni Hljómum í Reykjanesbæ. Tillagan verður tekin fyrir á bæjarstjórnarfundi í dag. Í greinargerð sem Kjartan Már leggur fram með tillögunni segir m.a.: „Hljómar voru og eru ein langvinsælasta hljómsveit á Íslandi. Á næsta ári mun hljómsveitin fagna 40 ára starfsafmæli sínu, sem er einstakur árangur í þessari starfsgrein. Meðlimir hljómsveitarinnar hafa löngum haldið nafni sveitarfélagsins á lofti og verið góð auglýsing fyrir það kraftmikla tónlistar- og menningarstarf sem þrifist hefur um áratugaskeið í bítlabænum eins og sveitarfélagið, fyrst Keflavík og síðar Reykjanesbær, hefur löngum verið kallað.“ Í greinagerð Kjartans kemur einnig fram að með því að reisa styttu af Hljómum sé verið að þakka hljómsveitinni fyrir framlag hennar til dægurtónlistar á Íslandi. Vonast er til að myndlistarmenn um allt land setji fram hugmyndir um styttu af Hljómum og að hægt verði að afhjúpa listaverkið á Ljósanótt 2003.