Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hljómar í magnaðri tónlistarveislu í Skagafirði
Þriðjudagur 29. mars 2005 kl. 13:52

Hljómar í magnaðri tónlistarveislu í Skagafirði

Það var ljóst að Skagfirðingar ætluðu ekki að missa af fjörinu síðastliðið laugardagskvöld, þegar saman leiddu hesta sína Hljómar úr Keflavík og Karlakórinn Heimir í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki, í magnaðri tónlistarveislu. Morgunblaðið greindi frá þessu í morgun
Óskar Pétursson frá Álftagerði var kynnir kvöldsins og sagði hann komu Hljóma í Varmahlíð á skírdag hafa valdið þar nokkrum titringi, enda búsettar þar nokkrar konur ættaðar úr Keflavík, og sagði Óskar að til mundu af þeim svarthvítar myndir við sviðið í Stapanum á fyrstu árum Hljóma þar. Taldi Óskar að eiginmenn þessara kvenna hefðu talið mjög mikilvægt að sýna yfirvegaða stillingu á þessum viðsjárverðu hátíðisdögum meðan gestirnir stæðu við.

Þá segir enfremur í Morgunblaðinu í dag: Dagskráin í Íþróttahúsinu hófst með því að fyrst flutti Heimir nokkur lög, en síðan stigu Hljómarnir á svið og fluttu nokkur af sínum ótalmörgu lögum sem orðið hafa sígild meðal landsmanna. Að afloknu hléi komu Hljómar og Heimismenn saman á sviðið og síðari hluti tónleikanna samanstóð af þekktum lögum, meðal annars úr amerískum söngleikjum, svo og perlum Gunnars Þórðarsonar. Má þar nefna lögin Þitt fyrsta bros, Harðsnúna Hanna og Bláu augun þín, en þar sungu saman Óskar Pétursson og Engilbert Jensen.
Í lok tónleikanna kröfðust áheyrendur, sem voru á sjöunda hundrað, aukalaga og voru endurflutt öll lög Gunnars á söngskránni auk lagsins Gamli bærinn minn, við frábærar undirtektir ánægðra gesta.

Dagskráin verður flutt í Stapanum í Reykjanesbæ og í Háskólabíói dagana 9. og 10. apríl næstkomandi.

Mynd af kór fengin af heimir.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024