Fréttir

Hleypur til minningar um systur sína
Fimmtudagur 18. ágúst 2016 kl. 06:00

Hleypur til minningar um systur sína

- Safnar áheitum fyrir Kristínarsjóð sem stofnaður var eftir andlát Kristínar Gerðar

„Ég hleyp til að halda minningu Kristínar, systur minnar, á lofti,“ segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir sem ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni núna um helgina og safna fyrir Kristínarsjóð. Sjóðurinn var stofnaður af Stígamótum og er ætlaður konum sem eru á leið úr vændi eða mansali og vilja byggja sig upp nýjan leik. Sjóðurinn er nefndur eftir Kristínu Gerði Guðmundsdóttur, systur Berglindar, sem var með fíknisjúkdóm og var þvinguð í vændi. Hún svipti sig lífi fyrir fimmtán árum síðan, 31 árs.

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Var beitt grófu ofbeldi

Kristín Gerður fæddist árið 1970 og ólst upp í Keflavík og gekk í grunnskóla þar fyrir utan eitt ár þegar hún var í skóla í Önundarfirði. Svo lá leið hennar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og segir Berglind hana hafa verið virka í félagslífinu, spilað með hljómsveitum og unnið til verðlauna í ræðukeppnum. Þá var hún afrekskona í sundi á grunnskólaaldri. „Eftir að hún lauk FS fór hún í lestarferð um Evrópu og flutti svo til Danmerkur. Þegar hún flutti aftur þaðan og til Íslands komumst við fjölskyldan að því að hún væri að glíma við eiturlyfjafíkn,“ segir Berglind. Við tók nokkurra ára erfiður tími þar sem Kristín fór í nokkrar meðferðir en féll og byrjaði aftur í neyslu á milli. „Síðustu árin í neyslunni var hún komin alla leið. Hún var orðinn sprautufíkill og var þvinguð í vændi. Hún lenti í hörðum heimi þar sem hún var beitt mjög grófu ofbeldi.“

Það var svo í desember 1995 að Kristín fór í sína síðustu meðferð, þá 25 ára, og var eftir það edrú í sex ár. Berglind segir það hafa tekið Kristínu langan tíma að komast upp á yfirborðið eftir að hafa lifað og hrærst í undirheimunum í mörg ár. „En þegar það svo gerðist fór hún á fullt að vinna við forvarnir. Hún fór hringinn í kringum landið á vegum Hins hússins og var með einlæga fræðslu fyrir nemendur í elstu bekkjum grunnskóla og foreldra um skaðsemi fíkniefna.“ Berglind segir fræðslu Kristínar hafa snert við mörgum enda hafi það verið henni hjartans mál að nýta reynslu sína til að hjálpa öðrum svo þeir myndu ekki feta sömu leið og hún. 

Eftir að Kristín hætti í neyslu naut hún mikils stuðnings frá Stígamótum. Hún vann í sínum málum, sótti einstaklingsviðtöl og var í hópum. Samtökin stofnuðu Kristínarsjóð svo eftir að hún lést. „Hún var í miklu og góðu sambandi við starfsfólk Stígamóta og bjó um tíma hjá dr. Guðrúnu Jónsdóttur, þáverandi talskonu og formanni Stígamóta. Á þeim tíma var almennt ekki rætt á opinskáan hátt um vændi og mansal á Íslandi og ekki mikil reynsla af því hvernig best er að hjálpa fólki sem er að koma úr þeim hættulega heimi,“ segir Berglind. Um nokkurra ára skeið var Kristínarhús starfrækt við Hlemm í miðbæ Reykjavíkur en það var athvarf fyrir fyrir konur á leið úr vændi og/eða mansali. Húsið var kennt við Kristínu Gerði. Því var lokað í ársbyrjun 2014 vegna fjárskorts. Stígamót bjóða í dag upp á einstaklingsviðtöl og hópavinnu fyrir þennan hóp. Berglind segir því mikilvægt að styrkja Kristínarsjóð til þess að hægt verði að styðja við fólk eftir þessa erfiðu reynslu.

Vildi nýta hæfileika sína
„Kristín var alltaf opinská um sína reynslu. Það voru þó hlutir sem hún vildi halda fyrir sig enda er erfitt að stíga fram með þessa reynslu og ákveðið tabú í samfélaginu að hafa tilheyrt hópi fólks með fíknisjúkdóma, sérstaklega á þeim tíma,“ segir Berglind. Hún segir Kristínu ekki hafa verið stolta af öllu sem hún hafði gert en fundist mikilvægt að nýta reynslu sína til að opna umræðuna.

Eins og áður sagði var Kristín 25 ára þegar hún hætti í neyslu. Berglind segir það hafa verið erfitt fyrir Kristínu að fóta sig í lífinu eftir síðustu meðferðina. „Hún komst á ágætis skrið en svo fóru andleg veikindi að ágerast. Síðasta árið sem hún lifði var hún mjög veik. Síðustu sex mánuðina tók hún mjög sterk lyf sem deyfðu hana mikið. Karakterinn hennar varð flatur og hún gat ekki sætt sig við að geta ekki nýtt hæfileika sína vegna andlegu veikindanna.“ Berglind útskýrir að Kristín hafi ekki getað verið án lyfjanna því þá leið henni eins og í helvíti. Hún gat heldur ekki verið á þeim því þá fannst henni hún vera lifandi dáin. „Árið 2001 tók hún svo þá ákvörðun að svipta sig lífi því hún gat ekki lifað með þessu. Hún var búin að vera á mjög dimmum stað í langan tíma,“ segir Berglind. Eftir að Kristín svipti sig lífi las fjölskyldan dagbækur hennar þar sem fram kom að ákvörðunin hafi verið henni mjög erfið. „Sérstaklega gagnvart fjölskyldunni. Hún gat ekki haldið sér á lífi fyrir okkur.“

Berglind segir umræðuna um fíknisjúkdóma, vændi og mansal opnari í dag en á þeim tíma er Kristín var veik. „Þetta er þó enn svolítið tabú. Á þessum tíma var litið niður á fólk með fíknisjúkdóma en mér finnst eins og það hafi breyst í dag. Það er meiri skilningur á því að það geta allir lent í því að falla fyrir fíknidjöflinum.“ Berglind nefnir Frú Ragnheiði sem dæmi um breytt hugarfar en það er verkefni á vegum Rauða krossins þar sem gömlum sérinnréttuðum sjúkrabíl er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin og starfsfólk hans veitir fólki með fíknivanda heilbrigðisaðstoð. Berglind segir vændi þó enn vera tabú þó að umræðan hafi opnast undanfarin ár. „Maður mætir ákveðnum fordómum. Ég er með aðra sýn á vændi en margir aðrir því ég þekki einhvern nákominn sem hefur upplifað það.“

Berglind með dóttur sinni, Andreu Ósk, eftir Color Run nú í sumar.

Ætlar að hlaupa alla leið
Berglind byrjaði að æfa fyrir Reykjavíkurmaraþonið í maí og hafa æfingarnar gengið vel. Hún skráði sig í hlaupahóp og fékk þar góðar ráðleggingar um það hvernig best er að hlaupa og hafa gaman af því í leiðinni. Í vikunni tók Berglind tvær æfingar og ætti því að vera vel úthvíld á laugardaginn í hlaupinu. Hún hefur ekki hlaupið mikið í gegnum tíðina og því er 10 km hlaup töluverð áskorun. „Markmiðið er að hlaupa allan tímann. Þetta er áskorun fyrir mig en það er alltaf gaman að taka þeim, sérstaklega fyrir góðan málstað.“ Hægt er að heita á Berglindi á vefnum hlaupastyrkur.is.