Hlegið að fundargerð
Fundargerð frá síðasta stjórnarfundi SSS vakti hlátur viðstaddra, bæði bæjarfulltrúa og gesta, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn. Enda ekki hægt að segja að hún hafi verið sérstaklega upplýsandi eða innihaldsrík þrátt fyrir að þessi síðasti fundur fráfarandi stjórnar hafi staðið yfir í einn og hálfan tíma. Tvö mál voru á dagskrá. Það fyrra voru ályktanir frá nýlegum aðalfundi SSS. Í fundargerð kemur fram að málin hafi verið rædd. Punktur. Seinna málið voru sameiginleg mál. Þar var ekki fleira lagt fram. Punktur.
Nýkjörinn formaður SSS er Gunnar Þórarinsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Þegar hann gaf orðið laust um fundargerðina sté Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í pontu og óskaði eftir því við Gunnar að hann sæi til þess að fundargerð SSS yrði marktæk framvegis. „Ég hef aldrei á ævinni séð svona vitleysu. Ég óska þess að þetta verði fært til bókar og formanni falið að sjá til þess að þetta verði gert betur,“ sagði Friðjón.
Gunnar sagðist skyldu koma þessu á framfæri.