Hlaut verðlaun fyrir viðskiptaáætlun
Viðskiptaáætlun Ríkharðs Ibsen og Alfreðs Möller, eiganda líkamsræktarstöðvarinnar Lífstíls í Keflavík, varð hlutskörpust í keppninni Nýsköpun 2000. Að samkeppninni stóðu Nýsköpunarsjóður, KPMG, Háskólinn í Reykjavík og Morgunblaðið. Tilgangur keppninnar var að þátttakendur skrifuðu heildstæða viðskiptaáætlun sem nýttist við kynningu og fjármagnsöflun ýmissa hugmynda. Samkeppnin hófst á Suðurnesjum í febrúarbyrjun með námskeiði þar sem ráðgjafi frá KPMG kenndi viðstöddum að skrifa slíka áætlun en þar voru mættir 45 áhugasamir einstaklingar. Er skemmst frá því að segja að viðskiptaáætlun Ríkharðs og Alfreðs, sem gengur út á heildarlausnir í heilsugeiranum, hlaut flest stig og var reyndar næst inn í verðalaunasæti á landsvísu. Hlutu þeir því 100.000 kr. í verðlaun frá Sparisjóðnum í Keflavík og það var Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri, sem ahenti þeim verðlaunaféð um leið og hann óskaði Ríkharði og Alfreð velfarnaðar. Þess má geta að áætlunin er hluti af framtíðaráformum Lífsstíls.