Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hlaut alvarlegan augnáverka eftir snjóbolta
Fimmtudagur 3. apríl 2003 kl. 10:25

Hlaut alvarlegan augnáverka eftir snjóbolta

-liggur rúmfastur og þarf hugsanlega að fara í augnaðgerð

Ásmundur Ólafsson 13 ára drengur úr Keflavík liggur á barnadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut alvarlega slasaður á vinstra auga. Ásmundur var að leika sér í snjókasti á mánudagskvöld og fékk snjóbolta í augað. Álfheiður Jónsdóttir móðir Ásmundar sagði í samtali við Víkurfréttir að blætt hafi inn á augað og að Ásmundur væri með alvarlegan augnáverka: „Hann má ekkert hreyfa sig vegna hættu á auknum blæðingum í auganu og hann þarf að liggja fyrir. Hann verður að minnsta kosti rúmfastur fram á föstudag og hugsanlega lengur. Ég býst ekki við því að hann fari í skólann fyrr en eftir páska því hann má ekkert hreyfa sig,“ sagði Álfheiður og vill brýna fyrir foreldrum að ræða við börn sín um það að vera ekki í snjókasti og benda þeim á að svona hlutir geta gerst og eru töluvert algengir: „Það var enginn steinn í snjóboltanum, heldur var þetta bara samanþjappaður snjór. Ég vona bara að foreldrar brýni fyrir börnum sínum hættuna sem fylgir því að vera í snjókasti. Þetta er stórhættulegt og það er möguleiki á því að Ásmundur þurfi að fara í aðgerð. Fyrsta daginn sá hann ekkert og það er ekkert vitað hve alvarlegur augnskaðinn getur verið,“ sagði Álfheiður í samtali við Víkurfréttir.

VF-ljósmynd: Ásmundur á barnadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024